Hús vikunnar: Eyri í Sandgerðisbót

Að þessu sinni bregðum við okkur út í Glerárþorp, í Sandgerðisbót. Þar standa m.a. verbúðir og iðnaðarhúsnæði en einnig hið vinalega timburhús Eyri.

Húsið Eyri, sem telst standa á horni Óseyrar og Ósvarar, byggði Þorsteinn Marinó Hörgdal Grímsson fiskverkunar- og verslunarmaður árið 1928. Bjó hann þar ásamt fjölskyldu sinni um árabil en kona hans hét Jónína Stefánsdóttir. Þorsteinn rak einnig litla verslun í húsinu um nokkurt skeið. Margir hafa átt húsið og búið þar gegn um tíðina og sjálfsagt hafa einhvern tímann verið fleiri en ein íbúð í húsinu. Ekki er greinarhöfundi kunnugt um, að fleiri hafi verslað í húsinu en Þorsteinn Hörgdal.

Eyri er einlyft timburhús með háu risi á lágum en djúpum steinkjallara. Miðjukvistur er á framhlið og inngönguskúr eða „bíslag“ á bakhlið. Einfaldir þverpóstar eru í gluggum hússins en á útveggjum er bárað plast, líklega svokölluð Lavella klæðning.  Á norðurhlið hússins er viðbygging, einlyft með valmaþaki. Ekki liggur fyrir hvenær byggt var við húsið, en horngluggar á viðbyggingu eru eitt helsta einkenni íslenskra funkishúsa, sem voru alls ráðandi á fimmta áratug 20. aldar og síðari hluta þess fjórða. Þannig er freistandi að áætla, að viðbygging sé frá því skömmu fyrir miðja 20. öld.

Eyri er látlaust og einfalt hús en stórglæsilegt engu að síður og er í mjög góðri hirðu. Líkt og gömlu býlin í Glerárþorpi tilheyrir húsið ekki samfelldri húsaröð heldur stendur stakt og er eina húsið sinnar gerðar í nærumhverfi sínu og nýtur sín þ.a.l. einstaklega vel. Ein í búð er í húsinu. Þessi mynd er tekin á öðrum degi páska, 6. apríl 2015.


Nýjast