Hús vikunnar: Aðalstræti 6

Í síðustu viku fjallaði ég um Lækjargötu 4, sem fram kom að var byggt sem heyhlaða á baklóð Aðalstrætis 6. Því er ekki úr vegi að taka Aðalstræti 6 fyrir í þessari viku. Aðalstræti 6 er eitt af elstu húsum Akureyrar, en það byggði Grímur Laxdal bókbindari um 1850. Aðalstræti 6 er bárujárnsklætt timburhús á lágum steingrunni. Norðurhluti hússins er einlyftur með háu risi og miðjukvisti en suðurhlutinn tvílyftur með flötu þaki, eins konar turn. Húsið er raunar byggt í tveimur áföngum; Grímur byggði norðurhluta en Stefán Thorarenssen, sem eignaðist húsið á eftir Grími (1862), byggði tvílyftu turnbygginguna til suðurs.  Kvisturinn var byggður löngu síðar.  Þá er skúr og inngöngupallur á bakhlið.

Árið 1870 eignaðist Hendrik Schiöth bakarameistari húsið og byggði hann m.a. hlöðu á baklóð, sem síðar varð einmitt Lækjargata 4. Hendrik sinnti auk bakarastarfsins póstafgreiðslu og gjaldkerastörfum og mun sú afgreiðsla hafa verið í þessu húsi. Kona hans, Anna Schiöth, var mikill garðyrkjufrömuður og ein stofnenda Lystigarðsins. Þá var hún mikilvirkur ljósmyndari og margar gamlar myndir eru til af Akureyri og Akureyringum eftir hana. Schiöth hjónin bjuggu hér til dauðadags, hún lést 1921 en hann 1923. Síðan hafa margir átt og eða leigt hér. Nú munu vera tvær íbúðir í húsinu, hvor á sinni hæð. Þegar þetta er ritað standa yfir endurbætur á þessu glæsta og sögufræga húsi, m.a. komnir nýlegir krosspóstar í glugga.

Þess má geta að í þessu húsi kaus kona í fyrsta í skipti á Íslandi. Var það Vilhelmína Lever, sem kaus í bæjarstjórnarkosningum árið 1863, rúmlega hálfri öld áður en konur hlutu kosningarétt. Þessi mynd er tekin þann 29. maí 2010.

 


Nýjast