Hús vikunnar: Aðalstræti 14; Gamli spítalinn

Í síðustu viku var umfjöllunarefnið elsta hús Akureyrar, Laxdalshús við Hafnarstræti. Þá er líklega nærtækast nú að fjalla um annað elsta hús Akureyrar; Aðalstræti 14 eða Gamla Spítalann.

Aðalstræti 14 er tvílyft timburhús með háu risi og er byggt árið 1835, jafnaldri þjóðskáldsins Matthíasar Jochumssonar (d.1920). Húsið mun talið fyrsta tvílyfta íbúðarhúsið hérlendis. Húsið reistu þeir Baldvin Hinriksson og Eggert Johnsen. Fyrstu áratugina var húsið íbúðarhús en árið 1873 gaf þáverandi eigandi, kaupmaðurinn Friðrik C.M. Gudmann, bænum húsið sem hæli fyrir sjúklinga eða spítala. Um svipað leyti var reist viðbygging við húsið að norðan og var spítalinn vígður 7. júlí 1874. Sjúkrarými voru á efri hæð suðurhluta en íbúð fyrir lækni á þeirri neðri Líkhús og þvottahús voru í norðurenda sem og baðhús fyrir almenning, líkast til það fyrsta á Akureyri.

Um 1898 fluttist spítalinn í nýtt og vandað hús nærri norðurbrún Búðargils, þar sem nú er Spítalavegur. Eftir það varð Aðalstræti 14 íbúðarhús og enn er búið í nyrðri hluta, sem skemmdist mikið í bruna árið 1961 en var endurbyggður. Skömmu fyrir aldamót 2000 hófust gagngerar endurbætur á syðri hluta, en þar hafði enginn búið um árabil. Tóku endurbæturnar yfir áratug enda mjög vandað til verka.  M.a. var grjóthlaðinn grunnur endurhlaðinn og miðaðist við allt við að halda sem í mest hið upprunalega. Nú er þetta annað elsta hús bæjarins allt sem nýtt og mikil bæjarprýði. Í norðurhluta eru tvær íbúðir en í suðurhluta hefur Aflið, samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi aðsetur. Myndin er tekin þann 14. maí 2015.

Þess má geta, að undirritaður hefur á vefsíðu sinni, www.arnorbl.blog.is  tekið saman lista yfir 100 elstu hús Akureyrar. Listinn er vitaskuld hvorki vísindalegur né óyggjandi, en sjón er sögu ríkari.

 


Nýjast