Hús dagsins: Laxdalshús; Hafnarstræti 11

Laxdalshús, Hafnarstræti 11, er langelsta hús bæjarins, byggt árið 1795. Mun það eina húsið í bænum byggt á 18. öld, sem enn stendur. Húsið er kennt við Eggert Laxdal kaupmann, en hann bjó í því frá því um 1875 til 1900. Húsið reisti hins vegar danskur kaupmaður, G.A. Kyhn að nafni. Laxdalshús er einlyft timburhús á steyptum grunni með háu risi, allt timburklætt; slagþili á veggjum og rennisúð á þaki. Á framhlið er smár miðjukvistur og tveir slíkir á bakhlið. 

G.A. Kyhn rak verslun í húsi sínu til 1808, er hann var dæmdur fyrir fjársvik og erlend fyrirtæki, kröfuhafar Kyhns, eignuðust húsið og reksturinn. Gekk húsið og verslunarreksturinn oftsinnis kaupum og sölum fram eftir 19. öldinni. Verslun var í húsinu fram yfir 1900, en einnig var búið í húsinu. Það má e.t.v. heita kraftaverk að Laxdalshús standi enn; í tvígang, þ.e. árin 1901 og 1912, brann nánast allt sem brunnið gat í næsta nágrenni hússins í stórbrunum. 

Í Laxdalshúsi var búið fram yfir 1970, og voru nokkrar smáar íbúðir í húsinu.  Laxdalshús var friðað í A-flokki af Bæjarstjórn Akureyrar haustið 1977 og var á næstu árum tekið í algera yfirhalningu og var endurbyggingu þess lokið á nokkrum árum. Endurbæturnar miðuðu að því að færa húsið sem næst upprunalegu útliti og ekki er annað að sjá en að þær hafi heppnast vel og hefur húsinu verið haldið vel við æ síðan. Eftir 1980 hefur húsið hýst m.a. ýmsa menningastarfsemi, verið nýtt sem veitingasalur og nú hefur kórinn Hymnodia aðstöðu í húsinu.  Þessi mynd er tekin þann 5. júní 2006.

 


Nýjast