180 milljónir til uppbyggingar á HSN og SAk

Reisa á tvær nýjar heilsugæslustöðvar á Akureyri.
Reisa á tvær nýjar heilsugæslustöðvar á Akureyri.

Í nýju frumvarpi meirihluta fjárlaganefndar Alþingis til fjáraukalaga fyrir árið 2020 er lagt til að Heilbrigðisstofnun Norðurlands eystra fái 100 milljónir kr. en búið er að vinna þarfagreiningu fyrir tvær heilsugæslustöðvar á Akureyri. Í framhaldi af því er að hægt að hefja hönnunarvinnu.

Bygging á nýrri heilsugæslustöð á Akureyri hefur lengi verið á döfinni en nýverandi húsnæðið þykir úrelt og ekki standast nútímakröfur.

Þá er gert ráð fyrir að Sjúkrahúsið á Akureyri fái 80 milljónir kr. til fullnaðarhönnunar á nýrri legudeildarálmu en þarfagreiningu er lokið. Hefur stjórn SAk haft það á stefnuskránni undanfarin ár að reist verði ný legudeild.

Njáll Trausti Friðbertsson þingmaður situr í fjárlaganefnd og segir þetta ánægjuleg tíðindi fyrir heilbrigðissþjónustu á Akureyri og nágrenni.

,,Það hefur lengi verið unnið að því að bæta aðstöðu heilsugæslunnar á Akureyri og reisa tvær heilsugæslustöðvar í stað einnar og því mjög ánægjulegt. Einnig að vinna hefjist við hönnun á nýrri viðbyggingu við sjúkrahúsið á nýrri legudeildarálmu. Þessu ber að fagna,“ segir Njáll Trausti.

Atkvæðagreiðslur um fjáraukann og fjárfestingaáætlunina kláruðust í gærkvöldi. „Það hefur margt gott áunnist hjá okkur í fjárlaganefndinni og þinginu síðustu daga.“

 

 


Nýjast