Hreyfing skiptir máli

Rannveig Elíasdóttir.
Rannveig Elíasdóttir.

Líkaminn okkar er gerður til þess að hreyfa hann. Hann er svo snjall að ef við ekki notum vöðva og bein telur hann óþarfa að vera eyða of mikilli orku í að viðhalda þeim vef og hann rýrnar. Það sést best á því þegar einstaklingur brotnar og þarf að vera í gipsi í einhvern tíma, þá verður sá útlimur miklu mjórri og veiklulegri en hinn, einfaldlega vegna rýrnunar.

Hreyfing er einn af lykiláhrifaþáttum heilbrigðis og vellíðunar á öllum æviskeiðum. Hreyfing dregur ekki bara úr flestum langvinnum lífstílssjúkdómum heldur bætir einnig heilsu, líðan og lífsgæði almennt. En hreyfing þarf að vera skemmtileg og áhugaverð til þess að við nennum og viljum stunda hana. Það er svo margt sem fellur undir hreyfingu og misjafnt hvað hentar hverjum og einum.

Mjög mörg börn stunda skiplagða hreyfingu á vegum íþróttafélga sem er gott og gilt. En það þarf ekki að æfa keppnisíþróttir til þess að stunda hreyfingu. Sá hópur sem ekki vill stunda keppnisíþróttir gleymist oft og verður til þess að þeir stundi litla sem enga hreyfingu. Það er þó gott að leyfa börnunum að prófa ýmsar íþróttir, mögulega finna þau sig í einhverju. Unglingar geta svo síðar stundað hreyfingu á líkamsræktarstöðvum en afar mikilvægt er samt að þau fái leiðbeiningar um réttar æfingar frá upphafi. Hreyfing getur verið svo ótal margt, út að leika, fara í göngutúr, fara í sund til að leika og svo margt annað. Það er bara spurning um að láta ímyndunaraflið ráða för.

Mælt er með því að börn og unglingar hreyfi sig að lágmarki í um 60 mínútur á dag, því má þó skipta niður á styttri tímabil yfir daginn og telst þá öll hreyfing með, eins og til dæmis að ganga í skólann. Foreldrar eru fyrirmynd barnanna sinna og ef þau stunda hreyfingu eru meiri líkur á því að börnin geri slíkt hið sama. Hreyfing getur líka verið þáttur í samverustundum fjölskyldunnar, eins og að fara saman í sund eða göngutúr, með því hugum við að heilsunni og styrkjum fjölskylduböndin.

-Rannveig Elíasdóttir, hjúkrunarfræðingur í heilsuvernd grunnskólabarna

 


Nýjast