Hreinn Elliða fótbrotinn - og bifvélavirki sendur á slysstað!

Old boys lið Völsungs og ÍBA eigast hér við á Húsavíkurvelli. Hreinn Elliða fer upp í skallabolta. Á…
Old boys lið Völsungs og ÍBA eigast hér við á Húsavíkurvelli. Hreinn Elliða fer upp í skallabolta. Á myndinni má einnig þekkja markvörðinn Ragnar, Magga Jónatans, Skúla Ágústsson, Arnar Guðlagusson Sævar Jónatans og Þormóð Einarsson, allt miklar knattspyrnukempur. Myndina tók að öllum líkindum Arnar Björnsson.

Hreinn Elliðason var á sínum tíma einn af betri knattspyrnumönnum landsins, lék m.a. með Fram og ÍA og spilaði þrjá landsleiki fyrir Íslands hönd. Síðar flutti hann norður, var leikmaður Völsungs í nokkur ár og þjálfaði liðið eitt tímabil. Hreinn var ótrúlegur harðjaxl, gekk aldrei haltur meðan báðir fætur voru jafnlangir og kveinkaði sér hvergi  undan benjum eða brotum.

Gleggsta dæmið um það var í leik á Húsavík, fáeinum árum eftir að knattspyrnuferli kempunnar var lokið. Þar mættust Old Boys lið Völsungs og ÍBA og margir fyrrum landsliðsmenn í báðum liðum. Hreinn fór upp í skallabolta eftir hornspyrnu og kom svo illa niður að ökklinn kubbaðist í sundur og þegar að var komið, vísaði hægri fótur Hreins  í 90 gráðu horni út frá leggnum. Samherjar og mótherjar fóru nánast á taugum þegar þeir sáu hvers kyns var, en Hreinsi var sá eini á vellinum sem var sallarólegur og lét sér hvergi bregða.

Umsvifalaust var kallað eftir lækni og sjúkrabíl, sem komu að vörmu spori og ekið var beint inn á völlinn þar sem Hreinn lá þverbrotinn. Þegar sjúkrabílstjórinn vatt sér út úr bílnum og Hreinsi sá hver hér var á ferð, skellihló hann og sagði: „Ja, hver andskotinn, þetta er dæmigert. Þegar maður brotnar, þá senda þeir bifvélavirkja á staðinn!“

Sjúkrabílstjórinn var nefnilega Sigurður nokkur Þórarinsson, og reyndar bifvélavirki að mennt.

Hreinn heitinn Elliðason var nefnilega ekki knattspyrnumaður sem stundaði það, eins og svo ótal margir í dag, að gera sér upp meiðsli. JS

 


Nýjast