Hjónin á Brúnum sinna listinni, hestunum og gestunum

Hugrún Hjörleifsdóttir og Einar Gíslason reka fjölskyldufyrirtækið Brúnirhorse að Brúnum í Eyjafjarð…
Hugrún Hjörleifsdóttir og Einar Gíslason reka fjölskyldufyrirtækið Brúnirhorse að Brúnum í Eyjafjarðarsveit.

 

Hugrún Hjörleifsdóttir og Einar Gíslason reka fjölskyldufyrirtækið Brúnirhorse að Brúnum í Eyjafjarðarsveit. Þar á bæ stunda þau hrossarækt, bjóða upp á sýningar á íslenska hestinum, reka veitingahús með heimabökuðu, vinnustofa Einars er þar til húsa auk þess sem sýningarsalur er á staðnum fyrir aðra listamenn. Bæði starfa þau einnig utan býlis, Einar kennir myndlist við Hrafnagilsskóla yfir vetrarmánuðina og sinnir eigin listsköpun, en Hugrún er menntaður gjörgæsluhjúkrunarfræðingur og gegnir stöðu námsstjóra við Sjúkrahúsið á Akureyri.

 

Reistu 350 fm hús á bæjarhlaðinu

Undanfarin ár hafa þau Hugrún og Einar unað glöð við sitt heima á Brúnum og stundað sína vinnu að auki utan bús. Einhvern vegin kviknaði þó sú hugmynd í kolli þeirra að bæta við sig og hefja ferðaþjónustu. „Það má segja að í okkar tilviki sé þetta þríþætt, okkar helsta áhugamál og ástríða eru hestar og listir og hér hefur ævinlega verið gestkvæmt. Við vildum samtvinna þetta þrennt í einum pakka,“ segir Hugrún.  Þau hjónin veltu vöngum yfir hvernig best færi á að samtvinna þessa þætti, laða að sér gesti sem í senn gætu notið lista og eða hestanna.

Úr varð að reist var 350 fermetra hús á bæjarhlaðinu, að hluta til ofan á gamalli vélaskemmu sem fyrir var. Í kjallaranum hefur Einar hreiðrað um sig með sína vinnustofu, þar eru fyrir hendi tæki og tól til að vinna grafíkmyndir og tréristur. Inn af vinnustofunni er sýningarsalur og þar er listamönnum boðið að sýna verk sín. Nú í vikunni var opnuð sýning þriggja systkina ættaðra frá Munkaþverá. Fyrsta sýning sumarsins var á verkum Gyðu Henningsdóttur og Einars Guðmann og þriðja og síðasta sumarsýningin verður á verkum Guðbjargar Ringsted sem opnuð verður snemma í ágúst.


Nýjast