Hef oftar þörf fyrir að skipta mér af hegðun drengja en stúlkna- segir danskur kennari

Helga Dögg Sverrisdóttir
Helga Dögg Sverrisdóttir

Oft er rætt um ólíka hegðun kynjanna í skólum á Íslandi. Mörgum finnst að drengir hagi sér ver en stúlkur og oftar en ekki rætt um hvort drengir séu tilbúnir til náms þegar þeir eiga að hefja skólagöngu. Hér á landi er aldursárið sem segir til um skólagöngu barns. Því miður höfum við ekki séð ástæðu til að leyfa börnum að byrja síðar í skóla en fæðingarár þeirra segir til um, hvað þá fæðingarmánuður. Öllum er ljóst að mikill munur er á félagslegri hegðun og þroska stúlku sem fædd er í janúar og dreng sem fæddur er í lok desember. Samt eiga þau að vera í sama bekk, fylgjast að alla skólagönguna með sama námsefni.

Af hverju ætli samfélagið á Íslandi sé ekki tilbúið að leyfa breytilegt upphaf skólagöngu þegar stefnan ,,Skóli án aðgreiningar“ er í hávegum höfð. Margir nemendur hefðu verulega gott af að vera ári lengur í leikskóla og mæta í grunnskólann þegar þeir eru betur undir það búnir.

Einkunnarkerfi danskra grunnskóla er öðruvísi en það íslenska og því er talað um meðaltalstölur í greininni. Við lok 10. bekkjar er gefið í bókstöfum hér á landi og því erfiðara að átta sig á þeim mun sem er á meðaltali nemenda. A, B, C og D skalinn gefur innsýn í hæfni og færni nemenda en himinn og haf getur verið á milli nemenda í B skalanum. Margir bregðast við með því að nota + til að sýna að nemandi er nær næsta bókstaf, t.d. C + segir að þú sér nær B en fjær.

Ég rakst á eftirfarandi grein en hún er skrifuð af dönskum kennara sem viðrar eigin skoðanir. Grunnskólakennarar á Íslandi hafa sömu sögu að segja, mörgum grunnskólakennurum hefur verið brigslað um að halda með stúlkum en skamma alltaf drengi.

Signe Kløve Dreyer kennir í Kaupmannahöfn og skrifar:

Af og til upplifi ég að drengir í 5. bekk ásaka mig um að halda alltaf með stelpunum og skamma bara strákana. Athugasemdin er ekki alveg röng segir grunnskólakennari í Danaveldi.

Ég tel það vandamál fyrir grunnskólann að við mótum ekki sömu faglegu færni og hæfni fyrir kynin þegar lokaáfanga er náð. Ég er hrædd um, segir danski kennarinn, að lýðræðislega séð verði það vandamál þar sem kynin fá ekki sama aðgang að framhaldsmenntun.

Nýjustu tölur frá stofnuninni ,,Den Sociale Kapitalfond“ sýnir skekkju milli kynjanna. Tölurnar sýna að bilið á milli einkunna hjá drengjum og stúlkum við lok grunnskóla eykst.

Árið 2016 voru stúlkur með hærri meðaleinkunn sem nemur á 0,85 einkunnarstigum en drengir. Í dönsku eru stúlkurnar 1.4 einkunnarstigum ofar en drengir.

Sem kennari með 15 ára reynslu vil ég benda á að ein af skýringunum getur verið að drengir eru ekki eins tilbúnir fyrir námið og stúlkur.

Skilgreiningin á að vera tilbúinn fyrir nám er: að sitja tilbúinn í sæti sínu á réttum tíma, lokið klósettferð, hafa drukkið og borðað, að hafa pennaveski með, vera tilbúnn og vita hvenær tíminn hefst.

Bjallan hringir eftir 10:00 frímínúturnar. Í 5. bekk sitja stúlkurnar tilbúnar við borðin. Flestar hafa fundið sætið sitt, margar tilbúnar með pennaveskið, vita hvaða fag á að kenna og hafa sótt bækurnar.

Drengirnir sjást ekki. ,,Hvar er afgangurinn af bekknum?“ spyr ég. ,,Strákarnir eru úti  á fótboltavellinum, eins og venjulega“ svarar ein stúlkan.

Ég fer út og sæki þá. Þeir eru enn uppteknir af leiknum, sveittir og skítugir. Þeir koma inn í hollum, margir þurfa á klósettið á leiðinni, fá sér vatn, tala við vini og ýta aðeins hvor við öðrum og slást sér til gamans á gólfinu.

Flestir hafa gleymt öllu um hvað er á stundaskráinni. Þeir eru glaðir og háværir.

Á meðan sitja stúlkurnar stilltar og bíða. Á meðan stúlkurnar bíða eftir drengjunum læt ég þær fá málfræðiæfingu.

Af og til koma kvartanir frá foreldrum stúlknanna. Þeir telja dætur þeirra bíða of lengi og oft eftir ,,órólegu drengjunum.“

Vegna þessa höfum við fengið teymi í bekkinn til að fylgjast með í hinum ólíku fögum til að finna út hver áskorunin er. Eftir athugun teymisins eru tölurnar sláandi. Helmingur bekkjarins er tilbúinn í upphafi tímans en hinn ekki. Allir sem eru tilbúnir á réttum tíma eru stúlkur. Á móti eru það drengirnir sem eru ekki tilbúnir.

Ég upplifi af og til að drengjunum í 5. bekk finnist ég halda með stelpunum og skammi bara þá. Þessi skoðun er ekki alveg röng. Ég þarf oftar að gera athugasemdir við hegðun drengjanna en stúlknanna.

Heldur grunnskólinn alltaf með stúlkunum?

Annan hvern dag langar mig að segja upphátt og ákveðið við drengina að þeir eiga að taka sig saman og koma sér upp af gólfinu.

Hina dagana efast ég, gera grunnskólakennarar of miklar kröfur til nemenda sem hafa ólíka endatölu í kennitölunni, sem sagt hvenær nemendur eru fæddir á árinu.

Helga Dögg Sverrisdóttir, grunnskólakennari.

 

Greinin er byggð á skrifum greinarinnar, ,,Lærer: Jeg har meget oftere brug for at adfærdsregulere drengene i klassen” eftir Signe Kløve Dreyer. Sótt á slóðina: https://www.kristeligt-dagblad.dk/debatindlaeg/hjaelp-mig-til-hjaelpe-drengene-i-skolen-jeg-har-meget-oftere-brug-adfaerdsregulere?utm_source=facebook&utm_campaign=post&utm_content=new&fbclid =IwAR2w45rzxaCV9fPG6rgVQIKkuweaOvUI-WVYvOY0zGGwz-6vIeyWABuvTPY


Nýjast