Hátíðardagskrá til heiðurs Frú Elísubetu

Í dag, kvennréttindadaginn 19. júní, verður hátíðardagskrá í Hofi kl. 17:00 til heiðurs frú Elísabetu frá Grenjaðarstað á 150 aldursári hennar. Þar verða tónverk hennar flutt og einnig frumsýnd heimildamynd um ævi hennar. Tónlistarkonan Fanney Kristjáns Snjólaugardóttir stendur fyrir verkefninu og hefur aflað sér heimilda um líf, starf og tónlist Elísabetar og hefur nú fengið til liðs við sig fjölbreyttan hóp af listafólki til þess að framleiða með sér mynd um Elísabetu, segir í fréttatilkynningu.

Frú Elísabet barðist fyrir kosningarétti kvenna á íslandi, tók þátt í stofnun kvenfélaga og stofnaði blað til að skrifa greinar um málefni kvenna. Hún var ein af þeim fyrstu til að fá lög sín birt á prenti og einnig til að gefa út sönghefti. Um þessar mundir stendur yfir söfnun inn á Karolinafund til þess að klára að fjármagna heimildarmyndina og þar er hægt að lesa meira um Elísubetu.

Tónlistarflutningur á hátíðinni verður í höndum Ásdísar Arnardóttur, selló, Fanneyjar Kristjáns Snjólaugardóttur, söngur, Kvennakórs Akureyrar, kórsöngur, Mariku Alavere, fiðlu og Sigrúnu Mögnu Þórsteinsdóttur, píanó og kórstjórn. „Fínn klæðnaður er viðeigandi á þessarri hátiðarstundu og viljum við hvetja allar konur til að klæðast upphlut eða peysufötum. Fjölmennum í Hof á kvennréttindadaginn,“ segir í tilkynningu.


Nýjast