Hættuleg planta dreifir sér um Akureyri

Bjarnarkló getur valdið miklum skaða.
Bjarnarkló getur valdið miklum skaða.
Bjarnarkló er enn að finna víða á Akureyri, á almenningssvæðum og í einkagörðum, þar sem ekki hefur fengist fjármagn í að eyða henni og íbúar losa sig ekki við hana úr görðum. Plantan hefur verið bönnuð síðan 2011, enda veldur safinn úr henni alvarlegum brunasárum og jafnvel blindu.
 
Frá þessu er greint á vef Rúv
 
Bjarnarkló, eða risahvönn (Heracleum mantegazzianum), er stórvaxin planta af sveipjurtaætt sem var upphaflega flutt til Íslands sem garðplanta. Síðustu áratugi hefur hún dreift úr sér innan þéttbýlisstaða og síðan 2011 hefur verið bannað að rækta hana og flytja inn. Enda er safinn úr henni mjög eitraður.
 
Í samtali við Rúv segir Starri Heiðmarsson, sviðstjóri grasafræði hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, að plantan sé mjög skaðleg og hana beri að varast. Sérstaklega á sólríkum dögum. „Ef þú færð safann úr henni á þig og svo skín sólin á húðina, þá veldur það bruna, allt upp í slæman, annan stigs bruna í verstu tilfellum,” segir hann. „Og þetta getur verið hættulegt fyrir börn að leik.”

 

Bjarnarkló er að finna víða í einkagörðum á Akureyri og brýna bæjaryfirvöld það fyrir íbúum að losa sig við hana. Plantan inniheldur efnið fúranókúmarín sem veldur brunasárum á húð sem geta verið mjög lengi að gróa. Og ef efnið berst í augu, þá getur það valdið óafturkræfum skaða. 

„Þetta getur valdið tímabundinni, og jafnvel varanlegri blindu, allavega skertri sjón, ef safinn berst í augu,” segir Starri. 

Á vef Rúv segir að Náttúrufræðistofnun hafi kortlagt útbreiðslu plöntunnar á Akureyri  fyrir tveimur árum og var þá rætt um að reyna að eyða henni. Yfir 2000 plöntur fundust á um 450 stöðum í bænum. Ekki hefur fengist fjármagn til þess að fara í þær framkvæmdir sem þarf til að eyða plöntunni.  


Nýjast