Grófin fagnar 5 ára starfsafmæli

Sumargrill Grófarinnar árið 2018 í Kjarnaskógi.
Sumargrill Grófarinnar árið 2018 í Kjarnaskógi.

Næstkomandi miðvikudag, þann 10. október fagnar Grófin geðverndarmiðstöð á Akureyri fimm ára starfsafmæli. Grófin var stofnuð af fólki í grasrótinni, þ.e. fólki sem glímt hafði við geðraskanir ásamt fagfólki í Geð­verndarfélagi Akureyrar.

Grófin er opið og gjaldfrjálst úrræði og þar starfar forstöðumaður sem er sálfræðimenntaður og þrír batafulltrúar í 25% starfi hver. Í Grófinni er lögð áhersla á virð­ingu og valdeflingu, þ.e. að fólk með geðraskanir láti sjónarmið sín og raddir heyrast og sé þannig betur í stakk búið til að taka ábyrgð í sínu bataferli.

Einnig er lögð áhersla á batamiðaða nálgun – þ.e. þátttakendur leggja sig fram um að skoða hvað virkar til að láta sér líða betur og eiga innihaldsríkt líf, með eða án geðröskunar. Miðvikudagurinn 10. október er ekki aðeins afmælisdagur Grófarinnar heldur er hann einnig alþjóðlegi geð­heilbrigðisdagurinn. Í Grófinni verður haldið upp á daginn með með opnu húsi kl 16-­18 þar sem boðið verður upp á afmæliskaffi og lauflétta dagskrá.

Um kvöldið kl. 20:00 verður haldin ,,geðveik messa“ í Akureyrarkirkju sem séra Svavar Alfreð Jónsson mun stýra. Í messunni mun Halla Björk Reynisdóttir forseti bæjarstjórnar flytja ávarp og flutt verða tónlistaratriði.

Grófarfólk býður alla velkomna í afmæliskaffið og geðveiku messuna meðan húsrúm leyfir.


Nýjast