Göngudeild SÁÁ á Akureyri verður líklega áfram

Göngudeild SÁÁ á Akureyri heldur að öllum líkindum áfram starfsemi.
Göngudeild SÁÁ á Akureyri heldur að öllum líkindum áfram starfsemi.

Meirihluti fjárlaganefndar hefur lagt til við aðra umræðu fjárlagafrumvarpsins að SÁÁ fái 100 m.kr vegna starfsemi göngudeilda á Akureyri og í Reykjavík. Gangi það eftir á starfsemi göngudeildarinnar á Akureyri að vera tryggð, en göngudeildin þjónar skjólstæðingum sínum á Norðurlandi öllu. Þar að auki hefur Velferðarráðuneytið rætt við Sjúkrahúsið á Akureyri um að gangi þetta eftir verði SAk faglegur bakhjarl fyrir geðheilbrigðisþjónustu tengda starfinu.

Hilda Jana Gísladóttir bæjarfulltrúi á Akureyri greindi frá þessu á Facebooksíðu sinni. „Þessu fagna ég auðvitað einstaklega innilega og verð að viðurkenna að eftir alla fundina, skrifin, samtölin, símtölin og baráttuna þá er ég ansi þakklát. Ég vil þakka öllum innilega sem hafa komið að þvi að koma í veg göngudeild SÁÁ hverfi frá Akureyri,“ skrifaði Hilda Jana.

Eins og fjallað var um fyrr á árinu er það vegna niðurskurðar að loka átti göngudeildinni á Akureyri. Væntanlegri lokun hefur verið mótmælt harðlega.

Göngudeild SÁÁ hefur verið starfrækt á Akureyri frá 1993 og veitt ráðgjöf og greiningu fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga á Norðurlandi. Þá hefur fólk með spilafíkn einnig fengið aðstoð þar. 


Nýjast