Göngu-og hjólastígurinn slær í gegn

Mynd/Einar Ernir Kristjánsson.
Mynd/Einar Ernir Kristjánsson.

Nýi göngu-og hjólastígurinn á milli Hrafnagils og Akureyrar hefur vakið mikla lukku og óhætt að segja að hann hafi slegið í gegn hjá bæði sveitungum í Eyjafjarðarsveit og Akureyringum. Klárað var að malbika stíginn um miðjan september en hann er alls 7.200 m. Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveit, segir stíginn vera frábært framtak sem hafi rækilega sannað sig.

„Það er nánast alveg sama hvenær maður hjólar stíginn eða ekur fram hjá honum, alltaf er fjöldi fólks að nýta sér hann. Sveitungar nota stíginn mikið en ég tel þó að mikill meirihluti þess sem hans njóta séu íbúar á Akureyri, enda er þetta mikil búbót fyrir svæðið í heild og opnar mikla möguleika til útiveru,“ segir Finnur.

„Ég sé líka gjarnan hóp fólks sem æfir gönguskíði þjóta um stíginn sem stóreykur möguleikana til æfinga fyrir þá og verður gaman að sjá hvernig það verður í vetur þegar snjórinn kemur.“ Finnur segir stíginn vera mikla samgöngubót. „Þá ekki síst fyrir þá sem hafa tileinkað sér að hjóla í vinnuna og jafnvel þá sem eiga rafmagnshjólin. Það sem er þó mikilvægast í þessu er að þetta hefur stóraukið öryggi vegfarenda.

Það hefur mikið verið hjólað eftir Eyjafjarðarbraut að Hrafnagili og til að mynda kemur mikið af skólahópum til okkar frá Akureyri á vorin og haustin. Það er okkur íbúum í Eyjafjarðarsveit því mikil ánægja af því að hafa lagt okkar að mörkum ásamt Vegagerðinni til að tryggja ferðir ungviðarins og annarra um svæðið,“ segir Finnur.

 


Nýjast