Golfklúbbur Húsavíkur 50 ára

Miðnæturgolf á Katlavelli. Mynd: HBH
Miðnæturgolf á Katlavelli. Mynd: HBH

Golfklúbbur Húsavíkur (GH) er 50 ára í ár og af því tilefni bíður klúbburinn bæjarbúum til veislu í aðstöðuhúsi sínu við Katlavöll á laugardag.

Það verður opið hús á milli 14 og 16 þar sem boðið verður upp á kaffi og með því og ljósmyndasýningu úr sögu klúbbsins. Þá gefst gestum einnig kostur á að reyna fyrir sér í golfíþróttinni og prófa að sveifla kylfu.

Vikudagur ræddi við formann GH, Hjálmar Boga Hafliðason en hann vonast til að sjá sem flesta á laugardag. „Ég held að það sé fullt af fólki sem hefur aldrei komið þarna – aldrei gengið þarna um. Ég hafði t.d. ekki gert það áður en ég byrjaði í klúbbnum fyrir sex árum síðan. Þetta er náttúrlega frábær staður með melum og lúpínu og brautum þar sem áður voru tún. Svo er búið að rækta svæðið heilmikið upp og mest allt í sjálfboðaliðastarfi vel að merkja,“ segir hann.

Hjálmar Bogi segir að Katlavöllur komi einstaklega vel undan vetri í ár og þar megi þakka óvanalega mildum vetri. „Svo erum við með nýjan vallarstjóra sem er Sigurður Hreinsson, hann stendur sig mjög vel í sínu starfi.“

GH 50 ára

Ekki lengur "snobbsport"

Aðspurður segist Hjálmar Bogi geta verið sammála því að það hafi lengi loðað við íþróttina að vera svokallað „snobbsport“ „Auðvitað hefur maður orðið var við það út á við að fólk heldur að þetta sé frekar lokaður snobbklúbbur og eflaust hefur það einhverntíman verið svo. Við höfum hins vegar verið að reyna markvisst að losa okkur við þennan stimpil og viljum að klúbburinn sé opinn öllum sem vilja stunda heilbrigða íþrótt í fallegu umhverfi óháð aldri,“ segir hann og bætir við að hann spili aldrei öðruvísi en í stuttbuxum.

Í Golfklúbbi Húsavíkur eru um 150 skráðir félagar og þar af eru um 20 börn en fleiri börn iðka reyndar golf án þess að vera skráðir félagar. „Við erum einmitt að bjóða núna upp á námskeið fyrir börn og frítt fyrir þá sem vilja prófa sportið. Svo getur hver sem er skráð sig í klúbbinn, borgað félagsgjaldið og þá getur viðkomandi spilað völlinn eins og hann vill. Svo er æfingavöllur líka sem við hvetjum fólk til að byrja á. Þá erum við með nýliðanámskeið í gangi núna, það eru einhverjir 30 þátttakendur en það námskeið er frítt og kennt tvisvar í viku,“ útskýrir Hjálmar Bogi.

Frábær útivist

GH 50 ára

Formaðurinn segir golfíþróttina vera frábæra útivist sem henti öllum, hvort sem um er að ræða keppnisfólk eða aðra sem vilja njóta útiverunnar. Það jafnist ekkert á við að spila golf í yndislegu veðri, blanka logni og miðnætursól í góðum félagsskap. „Ég setti mér strax það markmið þegar ég tók við formennsku í klúbbnum að fjölga almennum greiðandi félögum. Bara venjulegu fólki sem hefur gaman af útivist. Auðvitað þarf líka að vera keppni í þessu og við eigum fullt af keppnisfólki með lága forgjöf en markmiðið mitt var alltaf að fjölga almennum iðkenndum,“ segir hann og bætir svo við í kímniblandinni alvöru að hann ætli ekki að hætta sem formaður fyrr en honum hefur tekist að færa golfskálann norður fyrir læk; en að sögn Hjálmars er fráveita, vatn og rafmagn í ólagi eins og staðan er í dag.

„Við erum að vinna að því að byggja nýjan skála í horninu upp í Holtahverfi. Ég er búinn að vera í óformlegum viðræðum við sveitarfélagið um aðkomu þess og ætla í formlegar viðræður í haust,“ segir Hjálmar Bogi og bætir við eftir stutta þögn: „Sömuleiðis reiðum við okkur á velvild og aðkomu fyrirtækja á svæðinu.“

Félagsskapur allt árið

Golf hefur lengst af verið íþrótt sem fyrst og fremst er stunduð á sumrin hér á landi og er Húsavík engin undantekning þar á. Það er þó eitthvað sem Hjálmar Bogi vill breyta og þar kemur tæknin sterk inn. „Við vorum með golfhermi í gömlu síldarverksmiðjunni á Hafnarstétt sl. vetur en okkur vantar aðstöðu fyrir næsta vetur. Okkur langar í betri aðstöðu svo það sé hægt að halda klúbbnum lifandi yfir vetrartímann. Það hefur verið tilfellið að á veturna deyr klúbburinn en lifnar svo við á vorin. Við viljum reyna að snúa þessu. Það er eitt af markmiðum mínum að þetta verði heilsársfélagsskapur,“ segir Hjálmar Bogi Hafliðason, formaður Golfklúbbs Húsavíkur og leggur áherslu á að félagslífið í klúbbnum haldist allt árið.

 

 

 


Nýjast