Góðverkin kalla í Freyvangi

Freyvangsleikhúsið býður upp á frábært gamanleikrit nú á vordögum, þ.e. Góðverkin kalla, sem gerist í smábænum Gjaldeyri á Ystunöf þar, sem gjörsamlega ofvirk góðgerðarfélög starfa hvert í kapp við annað. Lóðarís, Dívans klúbbur og ekki má gleyma Sverðliljunum kvenfélagi en allir þessir klúbbar hafa fyllt sjúkrahús staðarins með stanslausum tækjagjöfum lækninum, dr. Birni (Guðjóni Ólafssyni), til mikillar armæðu. Dr. Björn nýtur andlegrar umönnunar sögusmettunnar Jakobínu (Hafdísar Eyglóar) þar, sem sannleikurinn skolast gjarnan til en dr. Björn trúir engu misjöfnu á Jakobínu því hún er mjög trúverðug í hans huga, enda algjör „lady“, sem strýkur honum um kinn.

En það er ýmislegt fleira að gerast á Gjaldeyri, sem kitlar hláturtaugar leikhúsgesta svo um munar og ætti enginn að láta þetta leikrit, sem sýnt er á Eyjafjarðarsvæðinu, fram hjá sér fara því þaðan fara allir brosandi í góðu skapi út í vorið. 100 ára afmælið Góðgerðarkapphlaupið er í hámarki við þetta stórafmæli sjúkrahússins og kemur þar sterkt við sögu gamli skarfurinn Jónas (Ingólfur Þórsson), sem ekki er óvanur á fjölum Freyvangs og fer á kostum að venju. Kona hans Dagbjört (Sólveig Gærdbo), hlýðin og undirgefin en skemmtilega útsmogin.

Þá koma einnig sterk við sögu Lúðvík (Haraldur Þór), þessi með skjalatöskuna, og kona hans, Drífa (Úlfhildur Örnólfsdóttir), sem ekki er við eina fjölina felld í karlamálum og sýnir Nonna hefli (Haraldi Erni) það ótvírætt í ástarbríma. En það verður ekki af þeim skafið Dagbjörtu og Drífu að þær eru kvenfélagsvalkyrjur og fara sannanlega offari í fjáröfluninni. Í leikritinu er líka á ferðinni ung og efnileg stúlka, hún Ásta (Sjöfn Smáradóttir), og þá er ótalinn Jökull Heiðar (Daði Freyr), sem er fekar óútreiknanlegur karakter. Skátarnir standa sig vel í sínum hlutverkum.

Í þessu ágæta og skemmtilega verki er enginn leikaranna á sviði menntaður leikari en standa sig allir afburða vel. Áhugamannaleikhús Freyvangsleikhúsið er áhugamannaleikhús og án þess að lítið sé gert úr menntun er stundum viljinn allt sem þarf. Þess má geta hér að þetta leikhús hefur margoft verið valið til að flytja verk sín í virtum leikhúsum höfuðborgarinnar og það er meira en margur annar getur státað af. Að taka viljann fyrir verkið er allt sem þarf.

Leikararnir láta sig hafa það að vinna að sýningunni 6-8 vikur fyrir frumsýningu 4-5 tíma á dag 6 daga vikunnar og er afraksturinn með slíkum ólíkindum að þau eiga öll mikinn heiður skilinn. Fram til þessa hafa leikhúsgestir komið alls staðar af landinu og er fólki, sem enn hefur ekki séð þessa frábæru sýningu bent á að sýningum fer óðum fækkandi og betra að ná sér í miða strax.

-Hjörleifur Hallgríms


Nýjast