Gilinu lokað frá 10-22 vegna HM

Búast má við að fjöldi fólks muni leggja leið sína í Gilið í kvöld og styðja sitt lið. Mynd/Þorgeir …
Búast má við að fjöldi fólks muni leggja leið sína í Gilið í kvöld og styðja sitt lið. Mynd/Þorgeir Baldursson.

Leikur íslenska landsliðsins gegn Króatíu á HM í knattspyrnu í Rússlandi verður sýndur beint á risaskjá í Listagilinu kl. 18 í kvöld. Talsverðan tíma tekur að koma upp skjánum og því verður lokað fyrir umferð ökutækja um gilið frá kl. 10 til klukkan 22:00 í kvöld er fram kemur á vef Akureyrarbæjar.

„Akureyringar og gestir bæjarins eru hvattir til að upplifa stemninguna í Listagilinu og njóta leiksins. Velkomið er að mæta með stóla ef fólk vill sitja en svo er líka gaman að fagna standandi. Veðurstofa Íslands spáir blíðu á Akureyri,“ segir á vef Akureyrarbæjar.

Meðan á lokun stendur er fólk vinsamlegast beðið að aka fremur Þórunnarstræti en Oddeyrargötu til að fara af Brekku niður í miðbæ. Oddeyrargatan er fremur þröng og þolir mun minni umferð en Þórunnarstrætið.


Nýjast