Gekk með hóp ferðagesta úr skemmtiferðaskipi upp á Súlur

Hluti af þýska hópnum við vörðuna á Ytri-Súlum.
Hluti af þýska hópnum við vörðuna á Ytri-Súlum.

Óskar Þór Halldórsson, leiðsögumaður hjá SBA, gekk með tólf manns úr þýsku skemmtiferðaskipinu Mein Schiff 3 upp á Súlur í vikunni er skipið lagðist við höfnina á Akureyri. „Þátttakendur voru afar glaðir með gönguna og þótti mikið til koma,“ segir Óskar Þór.

„Það var frábært fjallgönguveður. Sól og blíða og passlegur hiti. Flestir voru nokkuð sjóaðir í fjallgöngum, enda frá suðurhluta Þýskalands og í næsta nágrenni við Alpana. Þetta var bráðskemmtilegt.“

Óskar Þór segir að á hverju sumri séu nokkrar slíkar fjallgönguferðir hér á Akureyri fyrir farþega skemmtiferðaskipa. Fyrst og fremst biðja farþegar þýskra skemmtiferðaskipa um þennan kost. „Það er okkur að sjálfsögðu sönn ánægja að geta boðið upp á slíkar ferðir enda erum við Akureyringar við bæjardyrnar á frábærum fjallasal. Súlur í næsta nágrenni sem og Hlíðarfjall, sem einnig er skemmtilegur kostur. Og ekki er langt að fara út á Grenivík og labba þar upp á Kaldbak. Gleymum ekki Vaðlaheiðinni,“ segir Óskar Þór.

Óskar Þór Halldórsson

Hann segir að fjallamennska sé án efa að sækja í sig veðrið, bæði hér á landi og erlendis. „Ég hygg að umræðan um aukna mengun í heiminum og loftlagsmál almennt ýti undir þessa þróun. Við höfum séð sprengingu í hjólreiðum hér á landi og það á einnig við um mörg Evrópulönd og það sama gildir um fjallgöngur.“  


Nýjast