Gagnrýna snjómoksturinn í bænum

Minnihlutinn í bæjarstjórn Akureyrar gagnrýnir snjómokstur í bænum en snjómokstur var til umræðu á bæjarstjórnarfundi í gær að ósk Gunnars Gíslasonar oddvita Sjálfstæðisflokksins. Óskað var eftir svörum frá meirihlutanum um stefnu hans í snjómokstri.

Í bókun minnihlutans segir:

„Þegar upplýsingar um snjómokstur og hálkuvarnir á heimasíðu Akureyrarbæjar eru skoðaðar verður ekki annað séð en að það skuli vandað til verka og þar er forgangsröðunin skýr með hagsmuni barna í brennidepli. Það kemur hins vegar ekkert fram um það hvenær sé eðlilegt að byrja verkið þegar snjóar, sem hlýtur að vera frekar til vansa í ljósi þess hvernig snjómokstri var sinnt eða ekki sinnt í síðast liðinni viku. Það er skoðun okkar að snjómokstur og hálkuvarnir séu hluti af grunnþjónustu sveitarfélagsins og það hljóti alltaf að vera krafa um að öryggi vegfarenda, gangandi, hjólandi og akandi sé tryggt að teknu tilliti til aðstæðna.

Öryggi í umferðinni felst í því að gangandi og hjólandi vegfarendur og þá sérstaklega börn haldi sig á gangstígum og gangstéttum meðfram akbrautum. Til þess að svo sé er grundvallar atriði að hreinsa og hálkuverja göngustíga og gangstéttir. Það á ekkert síður við um göturnar þar sem hætta á árekstrum og ákeyrslum vex mikið ef götur eru ekki ruddar og hálkuvarðar þar sem við á. Það getur aldrei verið réttlætanlegt að setja líf, limi og eignir íbúa í þá hættu sem skapaðist í síðustu viku vegna þess að ekki var staðið eðlilega að snjómokstri og hálkuvörnum.

Það getur aldrei verið réttlætanlegt að spara fjármuni á þennan hátt fyrir Akureyrarbæ en auka útgjöld og þjáningar þeirra íbúa sem verða fyrir slysum og eignatjóni. Af þessu má ljóst vera að það er nauðsynlegt að skerpa á stefnu Akureyrarbæjar svo þetta ástand skapist ekki aftur hér í bæ,“ segir í bókuninni.


Nýjast