Gagnrýna lögþvingaðar sameiningar sveitarfélaga

Grýtubakkahreppur stendur að öllu leyti vel, er fjárhagslega sterkur og sjálfstæður, segir sveitarst…
Grýtubakkahreppur stendur að öllu leyti vel, er fjárhagslega sterkur og sjálfstæður, segir sveitarstjórinn.

Landsþing Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga samþykkti sl. helgi þings­álykt­un­ar­til­lögu um stefnu­mót­andi áætl­un í mál­efn­um sveit­ar­fé­laga. Í henni er gert ráð fyr­ir því að sveit­ar­fé­lög­um muni fækka veru­lega fyr­ir árið 2022 og enn frek­ar fyr­ir árið 2028. Sveitarfélög sem ekki ná 1000 íbúum eigi síðar en árið 2026 verður skylt að sameinast öðru sveitarfélagi, eða sveitarfélögum. Nokkur sveitarfélög í Eyjafirði ná ekki lágmarks íbúafjölda. Þar á meðal eru sveitarfélögin Grýtubakkahreppur og Svalbarðsströnd. Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps er sammála þeim meginmarkmiðum sem felst í tillögunni en hafnar hins vegar alfarið lögþvingaðri sameiningu sveitarfélaga.

Gengur þvert gegn öllum markmiðum

Í umsögn um tillöguna á heimasíðu Grýtubakkahreppps segir að það gangi þvert gegn öllum markmiðum tillögunnar að þvinga fram sameiningu sveitarfélaga, það sé algerlega óásættanlegt að Alþingi samþykki slíka tillögu í nafni lýðræðis og undir því fororði að styrkja eigi búsetu út um landið, þegar áhrifin á sumum svæðum verði þveröfug. Þá bendir sveitarstjórn Grýtubakkahrepps á að sjálfbærni sveitarfélaga fari ekki bara eftir íbúafjölda, lýðræðisleg virkni íbúa sé almennt meiri í litlum sveitarfélögum og mörg minni sveitarfélög geti veitt íbúum góða þjónustu til framtíðar. Þá segir sveitarstjórnin að minni sveitarfélögum hafi verið beint og óbeint haldið frá þeirri vinnu sem baki tillögunni býr. „Ráðherra hafnaði því að bjóða litlu sveitarfélögunum til fundar og heyra þeirra sjónarmið. Við heitum á Alþingi að hlusta eftir sjónarmiðum minni sveitarfélaga, sem tillagan snertir strax með beinum hætti. Það er ófært að láta góð markmið og önnur atriði sem í tillögunni eru, falla í skuggann af þeirri valdbeitingu hinna stærri.“

Þröstur Friðfinnsson

Hreppurinn fjárhagslega sterkur

Íbúafjöldi í Grýtubakkahreppi er 370 manns. Við fyrirspurn blaðsins segir Þröstur Friðfinnsson sveitarstjóri að hreppurinn standi að öllu leyti vel. Hann sé fjárhagslega sterkur og sjálfstæður. Hreppurinn veiti mikla þjónustu og reki leikskóla frá 12 mánaða aldri, grunnskóla, hjúkrunarheimili, áhaldahús, slökkvilið, íþróttamiðstöð með sundlaug og líkamsrækt, svo eitthvað sé nefnt.

Andsnúinn 1.000 íbúa markinu

Björg Erlingsdóttir, sveitarstjóri á Svalbarðsströnd, segist vera fylgjandi sameiningu sveitarfélaga en gagnrýnir 1.000 íbúa markið, sem og lögþvingaðar sameiningar eins og þær birtast í þingsályktunartillögunni. „Ég er andsnúin því að það sé einhver tala um íbúa sem ráði sameiningarmálum eða ekki og eins að íbúar undir 1.000 íbúa markinu missi sjálfsákvörðunarréttinn í þessum málum. Ég hefði haldið að sameiningar þyrftu að byggja á mun faglegri rökum en því að ná 1.000 íbúum,“ segir Björg við fyrirspurn blaðsins.

Björg Erlingsdóttir

Skuldir lágar og mikil uppbygging

Íbúar á Svalbarðsströnd eru alls 483. Björg segir sveitarfélagið standa vel. Skuldir séu lágar og afkoman góð. „Við erum að fjárfesta í nýju hverfi og uppbygging er á svæðinu. Hér eru sterk kúabú og stór atvinnurekandi, Kjarnafæði, stutt í þjónustu á Akureyri og margir íbúar sækja vinnu þangað. Við kaupum þá þjónustu sem við getum ekki staðið fyrir sjálf, af Akureyrarbæ og erum í mikilli samvinnu við nágranna sveitarfélögin,“ segir Björg. Hún bendir á að fjöldi íbúa sveitarfélaga þurfi sennilega að vera mun meiri en 1.000 til þess að veita alla þá þjónustu í nærsamfélaginu sem eru lögbundin verkefni sveitarfélaga. Fjarlægðir milli staða breytist ekki við þessi mörk, innviðina þurfi að styrkja þannig að hægt sé að sameinast um þjónustu á stærri svæðum, efla aðgengi og auðvelda. „Sveitarfélög og íbúar þeirra eiga að hafa þann rétt að ákveða sjálfir hvort og hverjum þeir sameinast,“ segir Björg.


Nýjast