Fyrsta örtónleikaröðin í Minjasafnskirkjunni

Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir, sellóleikari, skáld og lagasmiður, býður til stuttrar raðar af tónleikum í Minjasafnskirkjunni laugardaginn 27. júlí. Þar eru þrennir hálftímatónleikar í röð á dagskrá, þar sem Steinunn leikur sellósvítur eftir J.S. Bach, ásamt eigin lögum og ljóðum.

„Mönnum er velkomið að hlusta á alla tónleikana, eða velja úr það sem þeim líst á. Aðgangur er ókeypis og tekið við frjálsum framlögum,“ segir í tilkynningu. Tónleikarnir hefjast kl. 16:00, 16:40 og 17:10.

Steinunn leikur á tvö selló, annað fjögurra strengja með dimmum tóni, en hitt fimmstrengja með björtum tóni, og getur verið forvitnilegt að sjá gripina saman komna á nettri einsdags-tónleikaröð.

Steinunn gaf nýverið út ljóðabókina FUGL/BLUPL og geisladiskinn Ljúfa huggun með hljómsveitinni SÜSSER TROST, og mun m.a. flytja ljóð og lög þaðan. Örtónleikaröðin er sú fyrsta í sumar, en Steinunn mun fara með hana austur á Raufarhöfn og Þórshöfn í ágústlok, og enda á Ólafsfirði um miðjan september. Einnig verður Steinunn með ljóðadagskrá í Davíðshúsi 11. ágúst.


Nýjast