Fuglafjör og krummapör

Úr sýningunni „Krúnk, krúnk og dirrindí“. Mynd/Magnús Helgason.
Úr sýningunni „Krúnk, krúnk og dirrindí“. Mynd/Magnús Helgason.

Leikárið á Akureyri hófst með gáskafullri fjölskylduskemmtun á sunnudaginn var. Eftirvæntingin leyndi sér ekki þegar Hofgestir, ungir sem eldri, biðu þess að tjaldið lyftist og sýningin hæfist. Á sviðinu stóð mikilúðlegur krummi og bauð gesti velkomna í vægast sagt óvenjulegt samkvæmi, partý þar sem fugladans og söngur ræður ríkjum.

Söngleikurinn „Krúnk, krúnk og dirrindí“ er verk þeirra tvímenninga Hjörleifs Hjartarsonar, textahöfunds og Daníels Þorsteinssonar, lagahöfunds. Verkið á sér nokkuð langa forsögu en upphaflegi fuglasöngleikurinn var frumfluttur af barnakór Akureyrarkirkju á Kirkjulistahátíð 2013. Fyrir áeggjan Hilmars Arnar Agnarssonar, kórstjóra Söngfjelagsins, bættu þeir félagar nokkrum lögum við upphaflega verkið og var það flutt í þeirri útgáfu á síðasta ári af Söngfjelaginu og Kór Grundarkirkju í Eyjafirði sitt í hvoru lagi.

Verkið sem flutt var í Hofi á sunnudag var svo aukin og endurbætt útgáfa þess sem áður var komið og lögðu bæði atvinnuhljóðfæraleikarar (Sinfóníuhljómsveit Norðurlands) og atvinnusöngvarar sitt af mörkum til að gera sýninguna sem glæsilegasta. Söngvararnir og hópur ungra dansara stukku svo úr einu hlutverki í annað í sýningu sem krummi, í meðförum Jóhanns Axels Ingólfssonar, stjórnaði með þeim tiktúrum og sérkennum sem höfundur texta hefur ljáð honum.

Í upphafi verksins er krummi einn í fásinninu með fátt annað til að gamna sér við en snjótittlingana. Svo koma farfuglarnir hver á fætur öðrum og þá færist nú heldur betur fjör í leikinn og Fenjamýrin er öll á iði. Krummi hefur beðið komu þessara árvissu ferðalanga, eins og við mannfólkið, af því að þeir eru boðberar vor- og sumarkomu. Hann skilur reyndar lítið í því hvað farfuglarnir fá út úr því að vera að flækjast þetta heimshorna á milli á hverju ári og spyr því eðlilega hvort þeim þyki Ísland ekki nógu gott til að dvelja þar með honum allt árið um kring.

Krummi býður lóunnar eins og við mannfólkið. Fyrir þau okkar sem hlusta reglulega á hádegisfréttir Ríkisútvarpsins er vorið komið þegar fréttir eru fluttar af komu lóunnar til landsins. Í kjölfarið á lóunni kemur spóinn og kjóinn, stelkurinn, tjaldurinn og hrossagaukurinn svo ekki sé minnst á sílamáfinn. Já það er þetta með sílamáfinn. Hann er ekki hátt skrifaður af okkur mannfólkinu og í söngleiknum er sílamáfurinn „fulltrúi óvelkomnu gestanna í partíinu“. Í frábæru rappi kvartar sílamáfurinn yfir því að enginn sjái ástæðu til að syngja um hann.

Þá var komið að magnaðasta atriði sýningarinnar þegar hverafuglinn birtist. Innkoma þessa fyrirbæris var tæknilega mjög vel útfærð og ég verð að viðurkenna að ég dáðist að ungviðinu fyrir að láta ekki hræða úr sér líftóruna. Þótt hverafuglar séu ekki af þessum heimi þá segir Hjörleifur að þeir séu einu almennilegu þjóðsagnafuglarnir. Ekki má gleyma heimsmeistara langflugsins sjálfri kríunni en hún birtist í lokin skjannahvít og svífandi. Það atriði sem og dansinn í sýningunni almennt var sérlega vel samin og útfærður en Katrín Mist Halldórsdóttir á heiðurinn af hvoru tveggja. Dansararnir Bergþóra, Fanný, Molly og Þórunn stóðu sig með mikilli prýði. Búningar hannaðir af Evu Björg Harðardóttur lyfta sýningunni en þeir eru eðli málsins samkvæmt í skrautlegra lagi. Verkinu stýrir Agnes Wild og ferst það mjög vel úr hendi. Daníel Þorsteinsson situr svo sjálfur við píanóið og stýrir sveit einvala hljóðfæraleikara.

Sýningin var án hlés og er það vel. Óneitanlega gerðu annmarkar á hljóðblöndun það að verkum að texti skilaði sér illa út í sal. Eigi að síður héldu flytjendur athygli sýningargesta ágætlega og því er full ástæða til að ætla að verkið farir batnandi eftir því sem það er sýnt oftar. Óvísindaleg könnun á upplifun yngstu sýningargestanna benti eindregið til þess að sýningin hafi verið mikið ævintýri og vakið áhuga á fuglalífi og leikhúsi. Það er full ástæða til að óska öllum aðstandendum sýningarinnar til hamingju og vonandi að sem flest börn og ungmenni fái tækifæri til að njóta verksins á meðan það er á fjölunum í Hofi.

Því miður er enn og aftur ástæða til að gera athugasemdir við frágang Menningarfélags Akureyrar á sýningarskrá. Eins og svo oft áður er mjög takmarkaðar upplýsingar um persónur og leikendur. Færi betur á því að sýna þeim söngvurum og dönsurum sem leika misstór hlutverk í sýningunni tilhlýðilega virðingu með því að geta þess í hvaða hlutverkum þeir koma fram í. Það hefur í það minnsta þótt við hæfi að geta þess á hvaða hljóðfæri hver og einn meðlimur hljómsveitarinnar leikur á. Það er líka einkennileg og misvísandi framsetning að taka það fram að sýningin sé samstarfsverkefni allra sviða Menningarfélags Akureyrar.   

 

 


Nýjast