Friðlýsi stað á hafi úti fyrir dreifingu á ösku

Nýlega var ösku af Austurríkismanni dreift um Eyjaförð um borð í Húna II. Mynd/Þorgeir Baldursson.
Nýlega var ösku af Austurríkismanni dreift um Eyjaförð um borð í Húna II. Mynd/Þorgeir Baldursson.

Þorsteinn Pétursson, best þekktur sem Steini Pje og er einn af upphafsmönnum Hollvina Húna, hefur viðrað þá hugmynd að friða stað á hafi úti í Eyjafirði þar sem ösku af látnu fólki yrði dreift. Forsaga málsins er sú að nýverið var athöfn um borð í Húna II þar sem ösku af Austurríkismanni var dreift um Eyjafjörð. Sá var mikill Íslandsvinur hafði óskað eftir þessari athöfn hér á svæðinu. Fjölskylda mannsins kom með öskuna til landsins og fór um borð í Húna II þar sem öskunni var svo dreift í  Eyjafirði norðan við Hörgárgrunn.

Þetta er í annað sinn sem athöfn sem þessi fer fram um borð í Húna II. Fyrra skiptið var fyrir nokkrum árum þegar Íslendingur búsettur í Kanada óskaði eftir að öskunni yrði dreift í Eyjafirði.

Ekki mengandi fyrir hafið

Þorsteinn segir að eftir athöfnina á dögunum hafi hugmynd komið upp um að friða ákveðið svæði til þessarar athafna. „Vinur minn fór í samskonar athöfn erlendis þar sem búið var að friðlýsa stað fyrir duftker. Þetta er fullkomlega náttúruvænt og því ekki mengandi fyrir hafið. Duftker eru gjarnan búin til úr salti og eyðast á nokkrum klukkustundum. Mín hugmynd er sú að Akureyrarbær og önnur sveitarfélög í Eyjafirði taki sig saman og friðlýsi stað á Eyjafirði þar sem heimilt verði að sökkva duftkerfum. Oftast hefur minningarathöfn farið fram áður,“ segir Þorsteinn og bætir við að slíkar athafnir myndu vera í boði fyrir alla en ekki eingöngu kristið fólk.

Þorsteinn Pétursson

Sveitarfélögin komi sér saman um stað

Leyfi til þess að dreifa ösku í sjóinn í Eyjafirði veitir Sýslumannsembættið í Siglufirði. Þorsteinn segist ekki hafa sérstakan stað í huga í Eyjafirði sem hann vill láta friðlýsa. „Sveitarfélögin í firðinum þyrftu að koma sér saman um ákveðinn stað þar sem þetta yrði leyft og myndi ekki trufla skipaumferð og veiðar.“

 


Nýjast