Frí námsgögn í grunnskólum Akureyrar í haust

Frá og með næsta hausti fá grunnskólabörn á Akureyri m.a. stílabækur og ritföng að kostnaðarlausu í …
Frá og með næsta hausti fá grunnskólabörn á Akureyri m.a. stílabækur og ritföng að kostnaðarlausu í skólunum.

Bæjarráð Akureyrar hefur heimilað fræðslusviði bæjarins að vinna áfram að því að gera hluta af námsgögnum grunnskóla Akureyrarbæjar gjaldfrjálsan og leita allra leiða til að ná sem heildstæðustu og hagstæðustu innkaupum. Fræðsluráð hafði áður lagt til að öllum grunnskólabörnum í grunnskólum Akureyrarbæjar verði veittur hluti nauðsynlegra námsgagna þeim að kostnaðarlausu frá og með hausti 2017. Áætlaður kostnaður er um 16 milljónir króna.

Dagbjört Pálsdóttir, formaður fræðsluráðs, segir þetta vera mikilvægt skref í innleiðingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. „Akureyri hefur fyrst sveitarfélaga á Íslandi ákveðið að innleiða barnasáttmálann. Þetta er einnig mikilvægt skref í að jafna að­ búnað allra nemenda því svigrúm foreldra til námsgagnakaupa er mismunandi og gátu útgjöld heimila með mörg börn á grunnskólaaldri verið mörg tugi þúsunda í hverjum ágústmánuði,“ segir Dagbjört sem tók við formennsku í fræðsluráði í lok síðasta árs.

„Ég fór strax að kanna hvort grundvöllur væri fyrir því að hluti námsgagna verði gjaldfrjáls. Í síðustu viku fól bæjarráð okkur í fræðsluráði að vinna áfram að þeim áformum. Þetta þýðir að allir nemendur hafa aðgang að stílabókum, blýöntum, strokleðri, litum, skærum, lími og vasareikni í skólanum. Foreldrar þurfa áfram að standa straum af kostnaði við íþróttaog sundföt ásamt því að útvega skólatösku. Ég vil hins vegar hvetja foreldra og nemendur til að nýta það sem er til heima til þess að sporna við sóun,“ segir Dagbjört. 

Undanfarin misseri hefur umræðan um gjaldfrjáls námsgögn í grunnskólum farið vaxandi.  Síðastliðinn vetur fengu stjórnvöld afhentan undiskriftalista frá hátt í sex þúsund manns þar sem skorað var á þau að beita sér fyrir breytingu á grunnskólalögum þannig að námsgögn í grunnskólum verði gjaldfrjáls. Þá hafa Barnaheill einnig talað fyrir því að grunnskólaganga barna verði alveg gjaldfrjáls.

 


Nýjast