Framkvæmdastjóraskipti hjá Ásprenti

G. Ómar Pétursson framkvæmdastjóri Ásprents mun láta af störfum hjá félaginu þann 31. ágúst, að eigin ósk. G. Ómar er á förum til Spánar þar sem hann hyggst dvelja næstu tvö ár ásamt fjölskyldu sinni. G. Ómar hefur verið framkvæmdastjóri Ásprents sl. sextán ár og leitt uppbyggingu félagsins og sameiningar prentfyrirtækja á Akureyri. Við þessi tímamót hefur hann jafnframt selt hlut sinn í félaginu.

Nýr framkvæmdastjóri er Hallur Jónas Stefánsson en hann hefur starfað sem framleiðslustjóri Ásprents sl. þrettán ár. Hann kom til starfa hjá Ásprenti við kaup félagsins á stafrænu prentstofunni Stell árið 2006 og er því öllum hnútum kunnugur í rekstrinum. Hallur er jafnframt hluthafi í fyrirtækinu.

Ásprent er stærsta fyrirtækið á sviði prentunar og útgáfu utan höfuðborgarsvæðisins og veitir víðtæka þjónustu á sviði stafrænnar, offset og límmiðaprentunar, auk þess að gefa út Dagskrána og Vikudag á Akureyri og Skrána og Skarp á Húsavík. Hjá félaginu starfa 27 manns.   


Nýjast