Foreldrar í Glerárhverfi tóku sig saman og smíðuðu battavöll

Margir lögð hönd á plóginn við gerð vallarins sem hefur vakið mikla lukku.
Margir lögð hönd á plóginn við gerð vallarins sem hefur vakið mikla lukku.

Nokkrir galvaskir foreldrar í Glerárhverfi tóku sig saman í vor og smíðuðu svokallaðan battavöll í hverfinu fyrir krakkana en battavöllur er fótboltavöllur með trégirðingum allt í kring. Girðingin er gerð úr vörubrettum og var lítill sem enginn kostnaður sem fólst í þessu verkefni.

Sigrún Björk Sigurðardóttir, foreldri í hverfinu, hafði samband við blaðið og sagði frá því að hugmyndin hefði fyrst kviknað í fyrra en þráðurinn hafi svo verið tekinn upp í vor og ákveðið að látið slag standa. „Okkur fannst kjörið að nýta Seljahlíðarskóginn þar sem hann hefur staðið auður og ónotaður síðustu árin. Með sameiginlegu átaki tókst þetta. Gunnar, snillingur hjá Nesbræðrum, hafði samband við Samskip og græjaði þar vörubretti í verkefnið. Hann sótti öll brettin og raðaði þeim upp. Þá fóru nokkrir duglegir pabbar með sagir, skrúfur og áhöld út í skóg og hjálpuðust að við að skrúfa völlinn saman og festa hann kirfilega. Þetta tók ekki nema hálfan dag,“ segir Sigrún Björk.

Battavöllurinn hefur vakið mikla lukku og segir Sigrún Björk að Akureyrarbær hafi lofað að útvega tvö mörk í skóginn til þess að stækka leiksvæðið enn frekar. „Við vonum bara að það styttist í það og að þeir efni það loforð. Börnin eru alsæl með þetta framtak og við vonum að völlurinn verði mikið notaður í sumar.“


Nýjast