Fjölbreyttur menningarvetur framundan á Akureyri

Stúfur stígur aftur á svið í Samkomuhúsinu.
Stúfur stígur aftur á svið í Samkomuhúsinu.

Kynningarbæklingur Menningarfélags Akureyrar er kominn út og ljóst að af nægu er að taka fyrir menningarþyrsta Norðlendinga og gesti þeirra. Fjölskylduskemmtunin Krúnk, krúnk og dirrindí ríður á vaðið en um litríka og fjöruga sýningu allra sviða MAk er að ræða. Höfundar verksins eru Daníel Þorsteinsson og Hjörleifur Hjartarson, annar helmingur hljómsveitarinnar Hunds í óskilum. Leikstjóri er Agnes Wild, danshöfundur Katrín Mist Haraldsdóttir og leikari Jóhann Axel Ingólfsson. Krúnk, krúnk og dirrindí er frumsýnt 16. september í Hofi.

Kabarett

Heimsfrægi söngleikurinn Kabarett, eftir Joe Masteroff, verður frumsýndur í Samkomuhúsinu 26. október en sýningin er samstarf allra sviða MAk. Leikkonan Ólöf Jara Skagfjörð fer með hlutverk Sally. Aðrir leikarar eru Andrea Gylfadóttir, Birna Pétursdóttir, Hákon Jóhannesson, Karl Ágúst Úlfsson og fleiri.

Stúfur snýr aftur

Stúfur ætlar aftur að skemmta börnum á öllum aldri í Samkomuhúsinu í desember. Síðustu ár hefur jólasveinninn slegið í gegn með sýningarnar sem sanna að hann er einstaklega músíkalskur, skáldmæltur, ráðagóður og uppátækjasamur sveinn.

Gallsteinar afa Gissa,

Í febrúar verður barna- og fjölskyldusýningin Gallsteinar afa Gissa, í leikstjórn Ágústu Skúladóttur, sett upp í Samkomuhúsinu en verkið er byggt á bók Kristínar Helgu Gunnarsdóttur. Um tónlistina sér Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson en á meðal leikara eru Karl Ágúst Úlfsson, Benedikt Karl Gröndal, Birna Pétursdóttir, Jóhann Axel Ingólfsson, María Pálsdóttir og Margrét Sverrisdóttir.

Skjaldmeyjar hafsins

Í apríl verður verkið Skjaldmeyjar hafsins frumsýnt en höfundur og leikstjóri er Jenný Lára Arnórsdóttir. Hjartnæmt heimildaverk um blákaldan sannleikann sem konur sjómanna glíma við þegar erfiðleikar steðja að úti á hafi. Verkið er fyrsta frumsýningin í röð gróðurhúsaverkefna Leikfélags Akureyrar.

Djákninn á Myrká

Í maí fer Djákninn á Myrká á fjalir Samkomuhússins. Hryllilegt gamanverk fyrir alla fjölskylduna í leikstjórn Agnesar Wild. Verkið er annað verkið í röð gróðurhúsaverkefna Leikfélags Akureyrar.

Fröken frú

Í vor verður frumsýnd áhrifarík sýning sem fjallar um áföll á einlægan og húmorískan hátt. Frökenfrú og er frumsaminn einleikur eftir Birnu Pétursdóttur sem einnig er leikkona sýningarinnar. Fröken frú er samstarfsverkefni leikhópsins Umskiptinga og Leikfélags Akureyrar og er þriðja verkið í röð gróðurhúsaverkefna Leikfélags Akureyrar.

Barnamorgnar í Hofi

Undir lok september munu Hanna Dóra og Snorri Birgisson flytja nýjar útsetningar á þjóðlögum úr Eyjafirði. Flytjendur segja frá og spjalla við áheyrendur um lögin en tónleikarnir nefnast Og nú lengjast nætur.

Í maí ætla fimm hljóðfæraleikarar á tímaflakk um Evrópu millistríðsáranna þegar kvintettinn Norð-Austan 5-6 flytja verkið Vorvindar glaðir í Hofi.

Myndlistasýningin Stórval í 110 ár sló heldur betur í gegn í sumar en í vetur verða fjórar sýningar þegar Brynhildur Kristinsdóttir, Habbý Ósk, Þrándur Þórarinsson og Jón Laxdal sýna öll í Hofi.

Barnamorgnar í Hofi eru orðnir fastir punktar í tilveru margra fjölskyldna á Akureyri. Í september kom hópur barna og kíkti á Krumma í Krúnk, krúnk og dirrindí og fékk leiðsögn við fuglagrímugerð. Í október munu Gutti og Selma bjóða börn velkomin í Hof og í nóvember býður Menningarfélagið yngstu áhorfendurna velkomna þegar Sigrún Magna verður með lög og leiki. Í febrúar verður svo fjölskyldujóga með Gerði Ósk.

Eins og vanalega mun fjölmargt listafólk heimsækja Menningarhúsið Hof í vetur. Þar má til að mynda nefna tónleikana Við eigum samleið með Siggu Beinteins, Guðrúnu Gunnars og Jögvan Hansen í broddi fylkingar. Einnig verður Halloween Horror Show, Skon Rokk, hátíðarjólatónleikarnir Norðurljós og Óskar Pétursson í Hofi að ónefndum tónleikum til heiðurs hljómsveitinni ABBA.

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands

Þá er margt á döfinni í tónlistinni. Sinfóníuhljómsveit Norðurlands ætlar að heiðra tónlistararf Eistlendinga á hátíðartónleikum í Hömrum í október. Í nóvember ræðst Sinfóníuhljómsveit Norðurlands ekki á garðinn þar sem hann er lægstur þegar hljómsveitarverkið Ólafur Liljurós verður flutt í fyrsta sinn í upprunalegum búningi undir stjórn Hallfríðar Ólafsdóttur. Út úr kofanum er nýtt verk í söngleikjastíl eftir Michael Jón Clarke við texta Sigurðar Ingólfssonar. Í mars verða flutt tvö meistaraverk og frumflutningur á norðlenskri nýsköpun á 25 ára afmælistónleikum Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands. Um Páskana mun finnski hljómsveitarstjórinnAnna Marie-Helsing stjórna tveimur af  helstu verkum Mozart í Hofi og Langholtskirkju. Flytjendur eru Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Söngsveitin Fílharmonía og Kammerkór Norðurlands. Einleikari er akureyringurinn Alexander Edelstein.

Að sama skapi er fjöldinn allur af spennandi samstarfsverkefnum Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands framundan. Þar ber efst að nefna Lords of the Rings Two Towers, Celebrating David Bowie, Tobmobile og Midge Ure og Pálma Gunnarsson. Í febrúar mun svo SinfoNord flytja einn vindælasta söngleik heims, The Phantom of the Opera eftir sjálfan Andrew Lloyd Webber.

Nánari dagskrá Menningarfélags Akureyrar í vetur má finna á vefnum www.mak.is.

 


Nýjast