Fjölbreytni

Hrefna Hjálmarsdóttir
Hrefna Hjálmarsdóttir

Árið 1957 var þess minnst um víða veröld að 50 ár voru liðin frá upphafi skátastarfs. Í Englandi þar sem skátastarf hófst voru haldin tvö stór alþjóðamót, annað fyrir drengi og hitt fyrir stúlkur. Saminn var skemmtilegur mótssöngur sem endaði á þessum orðum „And we will march along together, another fifty years“. Og nú eru þessi fimmtíu ár liðin og vel það. Skátahreyfingin heldur enn velli og er á margan hátt öflugri á heimsvísu en nokkurn tímann áður. Hvað veldur þessum vinsældum og þessari tryggð sem gamlir skátar sýna gjarnan skátastarfi ?

Undirrituð hefur fylgst með skátastarfi um áratuga skeið og séð marga skáta blómstra og þroskast í skátahóp undir leiðsögn traustra foringja. Án þeirra verður starfið lítils virði. Það eru einmitt þeir sem kveikja áhuga hinna yngri á ýmsu því sem skátastarfið hefur uppá að bjóða.

Margir kannast við Magnús Hallgrímsson verkfræðing sem starfaði fyrir Rauða krossinn um árabil m.a. við vatnsöflun á þurrkasvæðum. Ég spurði Magnús eitt sinn „ Hvað varð til þess að þú valdir þér svona krefjandi verkefni að ævistarfi“. Hann svaraði því til að ferðalögin á skátaárunum hefðu oft verið erfið og og hefðu reynt á unga drengi  en alltaf verið skemmtileg. „En þarna kviknaði neistinn“ sagði Magnús.

Jón Yngvi Jóhannesson, bókmenntafræðingur sendi frá sér ævisögu Gunnars Gunnarssonar skálds fyrir nokkrum árum. Á bókakynningu í Skátamiðstöðinni árið 2011 sagði Jón Yngvi frá því að hann  hefði gengið mikið um æskuslóðir Gunnars á Austurlandi þegar hann vann að undirbúningi bókarinnar. Jón Yngvi sagði að þá hefði komið sér vel að  hafa starfað með Skátafélaginu Einherjum á Ísafirði í gamla daga og farið í langar gönguferðir á sínum skátaárum.

Umhverfismál hafa alla tíð skipað stóran sess í skátastarfi. Ekki mátti skilja eftir svo sem eitt bréfsnifsi eða korktappa eftir  á tjaldstæðum að afloknum mótum eða útilegum. Einn af fyrstu umhverfisráðherrum Íslands var einmitt Eiður Guðnason  (1939-2017) gamall skáti sem starfaði í Reykjavík. Hægt er að nefna marga skáta sem hafa verið í fararbroddi hvað varðar umhverfismál og náttúruvernd. María Ellingsen leikkona, er ein þeirra. Á fundi sem haldinn var í Háskólanum í Reykjavík árið  2010 sagði María frá því þegar hún fór í fyrstu skátaútileguna sína.  “Allt í einu hafði ég ekki bara kojuna mína til að sofa í, heldur heilan dal“.

Alltaf er verið að útbúa merki, fána, flokkskistur og hlið í skátastarfi og reynir þar á handlagni og listræna hæfileika. Það fannst skátapiltinum Guðmundi Oddi Magnússyni á Akureyri afskaplega gaman að fást við. Flestir þekkja hann nú undir nafninu Goddur.

Og til hvers er nú verið að læra þessa hnúta á 21. öldinni?

Ragnheiður Ösp Sigurðardóttir vöruhönnuður sagði eitt sinn frá því í viðtali að þegar hún hefði verið skáti í Keflavík, hefði hún hrifist af hnútum og hinu fallega formi þeirra. Ragnheiður framleiðir nú hnútapúða undir vöruheitinu „notknot“ og hafa verið afar vinsælir undanfarin ár.

Útilífið heillar. Gamlir skátar mynda gjarnan gönguhópa á fullorðinsárum. Störf í björgunarsveitum heilla þá sem kjósa frekar krefjandi ferðalög. Þar kemur þjálfun í hjálp  í viðlögum sér vel  en allir skátar læra grunnatriði í  skyndihjálp. Margir muna eftir skátapiltinum Smára Sigurðssyni. Hann hafði gaman af alls konar brasi sem oft fylgir skátastarfi og var ólatur að leggja lið ef á þurfti að halda. Það var ekki síst vetrarskátun sem heillaði hann. Margir landsmenn kannast nú við Smára Sigurðsson sem ötulan formann Landsbjargar.

 

Á árum áður héldu skátar í Reykjavík veglega skátaskemmtun, sem var fyrir skáta og  almenning. Það átti nú vel við þá skáta sem höfðu leik-og sönghæfileika. Þar steig Kjartan Ragnarsson t.d. sín fyrstu spor á leiksviði og duldist engum að þar var leikaraefni á ferð. Hjá Hraunbúum í Hafnarfirði var það Sigurður Sigurjónsson sem var allt í öllu á varðeldum og kvöldvökum enda hæfileikaríkur piltur eins og landsmenn þekkja.

 Sumir skátar fundu sig best í að vera foringjar hinna yngri skáta og lögðu mikið á sig til að gera skátastarfið heillandi og skemmtilegt, oft um árabil. Fjölmargir fór svo í kennaranám af einhverju tagi og urðu forystufólk í menntamálum.

Margir hafa minnst á að foringjastarfið hafi orðið þeim dýrmætt veganesti síðar meir þegar þeir hófu kennslu. Kristín Aðalsteinsdóttir var sveitarforingi í Kópavogi og eins á Akureyri um nokkurra ára skeið. „Það var í skátastarfi sem ég lærði að kenna“ sagði Kristín eitt sinn en hún starfaði sem kennari á ýmsum skólastigum í  45 ár síðast sem prófessor við Háskólann á Akureyri.

Þeir sem hafa áhuga á ljósmyndun finna  alltaf e-ð áhugavert myndefni í skátastarfi.  Mikið megum við vera þakklát öllum þeim sem hafa myndað „skátasöguna“ frá því á fyrstu áratugum og fram til dagsins í dag.

Söngur hefur ávallt skipað háan sess í skátastarfi. Það mega nefnilega allir syngja með. „Það yrði lítill söngur í skóginum ef aðeins bestu söngfuglarnir létu í sér heyra“, er máltæki sem gjarnan er vitnað í. Íslenskir skátar hafa átt því láni að fagna að eiga allmörg góð skátaskáld sem samið hafa lipra og góða texta.  „Söngur býr í sögu þjóðar, söng á feðratungan skær“ svo vitnað sé í gamlan norrænan skátasöng.

Bulltextarnir góðu eru líka nauðsynlegir til að æfa takt og hreyfifærni. Og þeim fylgir líka kátína og gleði.

Gerðar hafa verið rannsóknir á áhrifum þess að taka þátt í sönghópum,  á andlega líðan fólks. Söngur er talinn bætir geðheilsu fólks  og auka hæfni til samvinnu.

Skátakór hefur verið starfandi sunnan heiða um árabil. Kórinn fagnaði 20 ára afmæli sínu vorið 2018 í Víðistaðakirkju með glæsilegum tónleikum. Í janúar 2019 tók kórinn þátt í ungversku/austurrískum Vínartónleikum í Salnum í Kópavogi. Einnig hefur kórinn sungið á skátamótum, í kirkjunni að Sólheimum í Grímsnesi og víðar.

Íslenskir skátar hafa löngum verið áhugasamir að fara á skátamót í öðrum löndum. Árið 1937 fóru t.d. rúmlega 30 íslenskir skátar á alheimsmót í Hollandi. Á árunum sem heimsstyrjöldin síðari geysaði var ekki unnt að halda svona mót en árið 1947 var haldið Jamboree í Frakklandi. Það mót hefur jafnan verið nefnt friðarmótið og sóttu það allmargir íslenskir skátar m.a. margir frá Akureyri. Slíkar ferðir eru mikið ævintýri. Skátarnir  koma til baka með reynslu í farteskinu, hafa kynnst jafnöldrum frá ýmsum löndum, margir fá áhuga á alþjóðastarfi og eignast jafnvel vini fyrir lífstíð. Á þessum mótum er mikið lagt upp úr friði manna á meðal ekki síst á seinni árum enda ekki vanþörf á.

Þá er ótalinn stór  hópur  gamalla skáta sem stundar sjálfboðaliðastörf af ýmsu tagi og sýnir með því samfélagslega ábyrgð. Fólk sem stendur vörð um þá hugsjón að gera heiminn örlítið betri með sínu framlagi og telur ekki sporin sin í þágu góðra málefna.

Eins og sjá má býður skátastarf upp á fjölbreytt viðfangsefni þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi á lífsleiðinni.

Nokkrir ungir skátapiltar voru á skátafundi i Skátaheimilinu Hyrnunni  um daginn. Eitt verkefnið var að safna dósum og flöskum til að selja. Þegar foringinn var spurður um hvernig ætti að verja upphæðinni, svaraði hann að bragði: „Þetta fer til Rauða krossins, helmingurinn til hjálparstarfs  innanlands og hinn til hjálparstarfs utanlands“. Þó upphæðin verði etv. ekki há, þá er þarna  verið að sá fræjum sem vonandi auka mannúð og hjálpsemi. Það er í anda skátaheitis og skátalaga.

-Hrefna Hjálmarsdóttir

 

 


Nýjast