„Finnst þessi málefnasamningur ákaflega rýr“

Gunnar Gíslason.
Gunnar Gíslason.

„Mér finnst þessi málefnasamingur ákaflega rýr,“ segir Gunnar Gíslason, oddviti Sjálfstæðisflokksins, inntur eftir viðbrögðum við málefnasamningi nýs meirihluta Framsóknarflokksins, L-listans og Samfylkingarinnar á Akureyri sem kynntur var í vikunni.

„Það eru engar útfærslur í samningnum, engin tímasett markmið og ekki settar neinar tölulegar upplýsingar um eitt né neitt. Mín fyrsta upplifun var sú að það væri verið að setja fram málefnasamning sem menn þyrftu ekkert að standa við. Því það er ekki hægt að festa hönd á neitt þar sem allt er frekar loðið,“ segir Gunnar.

„Flokkarnir tóku sér ellefu daga í vinnuna og þetta er útkoman. Það sem mér dettur helst í hug er að flokkarnir séu ekki sammála um hvaða leiðir skal fara til að ná markmiðunum og það sé eitthvert hik á fólki.“

Býst við fjörugri bæjarstjórnarfundum

Gunnar hefur boðað harðari pólitík í bæjarmálunum á Akureyri, en þau hafa hingað til einkennst af samræðupólitík. Telur hann að von sé á fjörugri bæjarstjórnarfundum á kjörtímabilinu?

„Ég ætla rétt að vona það. En það sem ég átti við með harðari pólitík er fyrst og fremst það að við munum ekki ástunda samræðupólitíkina á lokuðum fundum þar sem við vinnum að verkefnum að sameiginlegri lausn. Við munum leggja fram okkar áætlanir og skoðanir og gera það opinberlega. Svo getum við sest niður og athugað hvort meirihlutinn sé tilbúinn í að mæta okkur þar.

Í raun og veru voru stefnuskrár flokkana allar eins fyrir kosningarnar en það er alveg ljóst að ef vinnan ætlar að vera þannig hjá meirihlutanum eins og hún birtist manni í þessum málefnasamningi, þá er ljóst að það verður ekkert hægt að sitja hjá og þegja. Við ætlum að vera ákveðnari í allri málefnalegri umræðu,“ segir Gunnar Gíslason. Gunnar Gíslason.


Nýjast