Fimm milljónir króna í nýjan listsjóð á Akureyri

Samkomulagið undirrituðu Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, Þórleifur Stefán Björnsson,…
Samkomulagið undirrituðu Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, Þórleifur Stefán Björnsson, formaður stjórnar Menningarfélagsins Hofs, og Þuríður Helga Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Menningarfélags Akureyrar. Mynd/Akureyrarbær.

Samkomulag um stofnun listsjóðs á Akureyri var undirritaður nýverið í Hofi. Megintilgangur sjóðsins er að styrkja listafólk til að nýta Menningarhúsið Hof og Samkomuhúsið sem vettvang fyrir listsköpun sína, stuðla að fjölbreytileika í listviðburðum í húsakynnunum og nýta þá möguleika sem þar eru fyrir fjölbreytta viðburði, segir á vef Akureyrarbæjar.

Nú þegar hefur verið opnað fyrir umsóknir á heimasíðu Menningarfélagsins Hofs, www.mak.is, þar sem hægt er að sækja um styrki vegna viðburða sem fram fara í Menningarhúsinu Hofi á tímabilinu 15. janúar til 31. ágúst 2019. Umsóknarfrestur er til miðnættis 2. desember næstkomandi en úthlutað verður úr sjóðnum formlega þann 9. desember.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, segir gaman að sjá í hversu miklum blóma menningarlífið í bænum standi en að menn geti alltaf á sig blómum bætt. „Við sláum tvær flugur í einu höggi með þessu samkomulagi. Ungt fólk með mikinn sköpunarkraft og sköpunarþörf fær aðgang að fyrirtaks aðstöðu og um leið verður nýtingin á Hofi og Samkomuhúsinu ennþá betri,“ segir Ásthildur.


Nýjast