Fíkniefnasala í íbúðargötu veldur nágrönnum áhyggjum

Lögreglan á Akureyri fylgist grannt með ákveðnum húsum við íbúagötur þar sem fíkniefnasala fer fram.
Lögreglan á Akureyri fylgist grannt með ákveðnum húsum við íbúagötur þar sem fíkniefnasala fer fram.

Íbúar við götu á Eyrinni á Akureyri hafa áhyggjur af aukinni fíkniefnasölu í einu húsi við götuna þar sem fíkniefnamisferli hefur aukist undanfarið ár. Íbúi við götuna hafði samband við Vikudag vegna umfjöllunar um fíkniefnaheiminn á Akureyri í síðasta blaði en vildi ekki láta nafn síns getið. Hann segir fólk sem býr við götuna vera óánægt með störf lögreglunnar.

„Íbúar verða fyrir ónæði af þessu en fólk er komandi þarna á öllum tímum sólarhringsins. Allir í nágrenninu vita hvað er í gangi. Íbúar við götuna eru ítrekað búnir að benda lögreglunni á þetta en það virðist ekki hafa neitt upp á sig. Við fáum þau svör frá lögreglunni að þeir viti af þessu. En svo gerist ekkert,“ segir hann. „Lögreglan hefur keyrt götuna fram og til baka og fjarlægt menn í allskyns ástandi þegar ruglið er komið úr böndunum en það er ekkert tekið almennilega á málinu að okkar mati. Þetta heldur alltaf áfram.“

Hann segir íbúana við götuna hafa hist og rætt málin. Áhyggjur séu á meðal fólks. „Hér eru börn og unglingar og fólki stendur ekkert á sama um ástandið. Við heyrum að það þýði ekkert að stoppa þetta því þá sprettur þetta upp annarsstaðar. En þetta er verkefni sem þarf að hjóla í.“

Eins og Vikudagur fjallaði um var um fyrir skemmstu er fíkniefnaheimurinn á Akureyri stærri en margir gera sér grein fyrir. Helstu efnin sem eru í notkun eru fyrst og fremst kannabisefni eins marijúana, sem ræktað er hér á landi, sem er til neyslu. Þá er amfetamín og önnur efni eins og MDMA/Ecstasy og lítilsháttar af kókaíni einnig í gangi. Læknadóp svokallað hefur aukist mjög mikið síðustu ár en um er að ræða lyfseðilsskyld lyf sem eru í flestum tilfellum löglega fengin en svo misnotuð. Neysla á fíkniefnum nær til krakka niður í 13 ára aldur.

Nokkur hús undir smásjá lögreglu

 

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni eru nokkur hús í bænum sem lögreglan fylgist sérstaklega með. Þessir staðir eru reyndar ekki alltaf þeir sömu og eiga það til að færast á milli húsa á skömmum tíma. Lögreglan segist ekki hafa forsendur til að ráðast inn í íbúðarhús þótt einhver tilkynni um eitthvað misjafnt í nágrenninu. Til þess að fá leitarúrskurð þurfi að meta upplýsingarnar og upplýsingagjafana hverju sinni og er ekki farið í aðgerðir nema nokkuð öruggt sé að finna einhver fíkniefni hjá viðkomandi aðilum. Árangurslaus leit í íbúðarhúsum fólks leiði til þess að ríkið getur þurft að borga skaðabætur.

Lögreglan segir fíkniefnasala á Akureyri yfirleitt sjálfa vera í neyslu og því ekki alltaf efni sem þeir eru að selja eða afhenda öðrum til staðar. Þannig sé ekki alltaf starfsemi í gangi og upplýsingar um sölu í dag geta verið gagnlausar á morgun. Því sé málið oft flókið.  


Nýjast