Fastur kjarni forsenda mótvægis við önnur leikhús

Mikilvægt er að fastráða leikara við LA að mati leikhússtjóra.
Mikilvægt er að fastráða leikara við LA að mati leikhússtjóra.

Marta Nordal, leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, segir að félagið verði að hafa fastan kjarna og fastráða leikara til að vera samkeppnishæft við leikfélögin fyrir sunnan. Ekki hafa verið fastráðnir leikarar við LA í nokkur ár. Marta er í opnuviðtali í nýjasta tölublaði Vikudags og segir tækifæri liggja í því að Leikfélag Akureyrar sé eina starfandi atvinnuleikhúsið utan höfuðborgarsvæðisins.

„Það er kappsmál að standa jafnfætis öðrum atvinnuleikhúsum að gæðum. LA nýtur líka sérstöðu vegna þeirrar sameiningar sem átt hefur sér stað við sinfóníuna. Þar liggja líka tækifæri en ekkert annað atvinnuleikhús á Íslandi býr að þessu. Það er hagur allra að báðar þessar menningarstofnanir eflist og vinni saman að verkefnum t.d söngleikjum og öðrum verkefnum þar sem báðar stofnanir geta lagt eitthvað til.“

Marta hefur sagt að hún vilji fastráða leikara við LA á ný og það allt að fjóra leikara. „Það er á stefnuskránni að ráða leikara og ég tel það að hafa fastan kjarna vera forsendu fyrir því að LA verði mótvægi aftur við önnur leikhús á höfuðborgarsvæðinu. Leikhússtjórar koma og fara. Þegar þeir fara í burtu er mikilvægt að Leikfélagið standi ekki autt heldur að það séu einhverjir eftir sem haldi Leikhúsinu gangandi og finnist það eiga eitthvað í því. Það væri þá fólkið sem býr hérna og væri fastráðið.“

Marta Nordal

 

En hvenær sér Marta fyrir sér að geta fastráðið leikara við LA? „Ég veit það ekki alveg. Fyrst ætla ég að sjá hvernig þetta ár gengur. Leikhússtarfsemi er dýr. En núna erum við með þriggja ára menningarsamning við ríkið sem veitir ákveðið öryggi og festu. Ég vona að fjárframlög aukist jafnt og þétt og það hjálpi til við að láta drauminn rætast að fastráða,“ segir Marta.


Nýjast