Faraldurinn bítur ferðaþjónustuna í Grímsey

Halla Ingólfsdóttir í Grímsey.
Halla Ingólfsdóttir í Grímsey.

Halla Ingólfsdóttir rekur ferðaþjónustufyrirtækið Arctic Trip í Grímsey sem býður upp á ýmsa afþreyingu í og við eyjuna. Hún segir að sumarið hafi litið vel út áður en heimsfaraldur Covid-19 skall á.

„Ferðaþjónustan hefur verið í miklu vexti hjá okkur og það stefndi allt í mjög gott sumar. En við erum með það mikla aðlögunarhæfni hér í Grímsey að við aðlögum okkur að breyttum aðstæðum og reynum að gera gott úr því sem við fáum ekki stjórnað,“ segir Halla. „Við vitum líka að það fer allt eftir veðri hvert Íslendingarnir ferðast. Þar sem verður gott veður þar mun fólk hópast saman. Við treystum því svolítið á góða veðrið.“

Ferðaþjónustan sem Arctic Trip hefur boðið upp hefur notið vinsælla meðal erlendra ferðamanna en m.a. hefur verið boðið uppá að snorkla með lundanum. Þá hafa erlendir atvinnuljósmyndarar sótt töluvert í ferðir til Grímseyjar. Halla segir að talsvert hafi því verið um afbókanir meðal erlendra gesta í sumar.

Stefndi í metsumar í þjónustu við skemmtiferðaskip

„Einnig stefndi í met sumar hjá mér varðandi þjónustu við skemmtiferðaskip í sumar. Skipakomur hafa verið að aukast og líka það að skipin hafi pantað þjónustu hjá mér við komuna til Grímseyjar. Þannig að það stefndi í metsumar og svekkelsið er vissulega mikið. En það er lítið við því að gera.“ Hún segir þó engan bilbug vera að finna á Grímseyingum. „Ég held að þegar ástandið verður eðlilegt á ný þá munum við halda okkar. Við höfum mikla sérstöðu og erum t.d. með bókanir í gistingu til ársins 2022,“ segir Halla Ingólfsdóttir.    

 


Nýjast