Fæði- og vistunargjöld í skólum hækki um 3%

Að óbreyttu munu fæðis- og vistunargjöld leik-og grunnskólum Akureyrar hækka um áramótin. Mynd/Þorge…
Að óbreyttu munu fæðis- og vistunargjöld leik-og grunnskólum Akureyrar hækka um áramótin. Mynd/Þorgeir Baldursson.

Gert er ráð fyrir hækkun á vistunar-og fæðisgjöldum í leik- og grunnskólum á Akureyri um 3% um áramótin. Þá er einnig lagt til að gjaldskrá Tónlistarskólans hækki um 3%. Meirihluti fræðusluráðs hefur sam­þykkt að vísa tillögunni til stað­festingar í bæjarráði.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Mið­flokks og Vg í fræðsluráði gera athugasemdir við þessar hækkanir. Í tillögu þeirra Rósu Njálsdóttur M-­lista, Marsilíu Dröfn Sigurðardóttur D­-lista og Þuríðar Sólveigar Árnadóttur V­-lista er m.a. lagt til að ávaxtaog mjólkuráskrift í grunnskólum Akureyrarbæjar verði gjaldfrjáls frá og með 1. janúar 2019. Einnig að boðið verði upp á frían hafragraut í morgunmat í öllum grunnskólum Akureyrarbæjar.

Jafnframt er lagt til að ekki verði heimiluð hækkun á gjaldskrá vegna há­degisverðar í grunnskólum Akureyrarbæjar og ekki verði heimiluð hækkun á gjaldskrá vegna fæðis í grunnskólum. Meirihluti fræðsluráðs hafnar þessum tillögum minnihlutans. 

Komi til móts við barnafjölskyldur

Í bókun minnihlutans segir að lækkun eða afnám fæðisgjalda í grunnskólunum sé einn þáttur í því að koma til móts við barnafjölskyldur hvað varðar útgjöld, minnka álag á heimilum og stuðla á þann hátt að því að öll börn myndu hefja sinn skóladag mett og í góðu jafnvægi. Í bókun meirihluta fræðsluráðs segir að gengið hafi verið út frá því að gjaldskrá mötuneyta í leikskólum standi undir hráefniskostnaði og gjaldskrá mötuneyta í grunnskólum standi undir bæði hráefnis­ og rekstrarkostnaði.

Kanna möguleikann á fríum hafragraut

„Gert er ráð fyrir að 3% hækkunin sem lögð er fram muni mæta auknum hráefniskostnaði í leikskólum og grunnskólum árið 2019. Nú þegar er hafragrautur í boði fyrir grunnskólanemendur í byrjun dags í flestum skólum,“ segir í bókun meirihlutans. Þá segir einnig að sviðsstjóra hafi verið falið að gera úttekt á málinu og kanna möguleikann á að bjóða upp á hafragraut í öllum grunnskólum bæjarins.


Nýjast