Erindi miðilsins við samfélagið hefur vaxið

Birgir Guðmundsson.
Birgir Guðmundsson.

Á þessum tímamótum í ævi staðarblaðsins Vikudags sem nú fagnar 20 ára afmæli er við hæfi að skoða þýðingu þess fyrir nærsamfélagið, einkum lýðræði og samfélagssamheldni, en það er ekki síst á þessum sviðum sem mikilvægi staðbundinnar fjölmiðlunar liggur. Lýðræði og sérstaklega íbúalýðræði snýst ekki síst um það að borgararnir geti tekið virkan og upplýstan þátt í að móta tillögur og taka ákvarðanir um atriði sem varða þá og skipta máli í nærumhverfi þeirra.

Upplýsingaflæði og almenn félagsleg virkni, það sem kalla mætti samfélagsþátttöku, samfélagssamheldni (Community Integraion) eða félagsauð (Social Capital), eru því í lykilhlutverki í íbúalýðræði. Staðbundnir fjölmiðlar eru mikilvægur farvegur upplýsinga og umræðu í nærsamfélaginu sem rannsóknir sýna að efla þessa grunnþætti íbúalýðræðis. Þegar rætt er um félagsauð samfélaga er dregið fram mikilvægi þeirrar “fjárfestingar” í samfélaginu sem felst í hvers konar tengslanetum fólks og félagslegum samskiptamátum.  

Rannsókn á Akureyri

Ekki hafa verið gerðar margar rannsóknir á tengslum samfélagssamheldni eða félagsauðs og  fjölmiðla á Íslandi. Þó var gerð á vegum undirritaðs eigindleg rannsókn á Akureyri fyrir sex árum síðan þar sem staðlað viðtal var tekið við 33 bæjarbúa. Þar voru m.a. skoðuð tengsl ýmissa þátta samfélagssamheldni og notkunar á staðbundnum fjölmiðlum, einkum lestri á staðarblaðinu, Vikudegi.  Niðurstöður virðast benda til svipaðs mynsturs hér á landi og annars staðar varðandi þessi tengsl. Meðal þess sem fram kom var að:

1) Áskrifendur að staðarblaðinu og fólk sem fylgist með staðbundnum fréttum er ólíklegra en hinir til að vilja flytja burt.

2) Áskrifendur að staðarblaðinu og fólk sem fylgist með staðbundnum fréttum er almennt áhugasamara um þjóðfélagsmálefni (ekki bara á Akureyri).

3) Fólk sem er í áskrift að staðarblaðinu og fylgist með staðbundnum fréttum finnst það vera hluti af samfélagi bæjarins og að tengsl við aðra bæjarbúa skipti sig miklu máli. 

4) Fólk sem er í áskrift að staðarblaðinu og fylgist með staðbundnum fréttum er reiðubúnara til að vinna með öðrum að því að gera bæinn betri en hinir.

5) Fólk sem er í áskrift að staðarblaðinu og fylgist með staðbundnum fréttum er líklegra til að spjalla við aðra bæjarbúa en hinir. 

Breyttur heimur

Umhverfi fjölmiðla hefur tekið miklum stakkaskiptum frá því að þessi athugun var gerð og rekstraumhverfi fjölmiðla, sérstaklega staðbundinna miðla hefur versnað í aukinni samkeppni við hnattræna netmiðla s.s. Google og Facebook sem hér, líkt og annars staðar í löndunum í kringum okkur,  hrifsa til sín sífellt stærri sneið af staðbundnum auglýsingatekjum. Eitt megin einkenni hins nýja fjölmiðlaumhverfis þar sem blandast saman samfélagsmiðlar og hefðbundnir ritstýrðir miðlar er hversu dreifstýrt og hólfaskipt  það er og hve skemmtiefni hvers konar er áberandi.  Hættan við slíka þróun er að hinn sameiginlegi vettvangur glatist og los komi á þá samfélagssamheldni sem hefðbundnir staðarmiðlar stuðla að. Lýðræðisleg umræða verði þá handahófskennd og þeir nái að stýra henni sem hæst hafa.  Vikudagur hefur eðlilega brugðist við þessari áskorun og birtir unnið efni sem byggir á lögmálum hefðbundinnar fjölmiðlunar hvoru tveggja  á netinu og í prentuðu formi. 

Mikilvægt erindi

Segja má að þegar Vikudagur hleypti heimdraganum fyrir 20 árum hafi hann vissulega átt erindi, þó það erindi hafi ekki verið nærri eins mikilvægt og það er nú. Þá voru starfandi á Akureyri og nærsveitum fjölmargir miðlar sem sinntu upplýsingamiðlun innan svæðisins. Nú hins vegar er öldin önnur og allir stóru miðlarnir, dagblöðin og ljósvakamiðlarnir hafa minni viðveru á svæðinu. Sú mikilvæga eðlisbreyting hefur líka orðið á umfjölluninni að nú er verið að segja landsmönnum öllum frá áhugaverðum hlutum af svæðinu í stað þess að verið sé að miðla upplýsingum og umræðu milli íbúanna sjálfra, upplýsingum sem eru þess eðlis  að eiga kannski ekki erindi á landsvísu.

Erindi hefðbundna staðarmiðilsins Vikudags er því umtalsvert meira og mikilvægara í dag en það var og mikilvægt að hann standi sterkur áfram.  Á Norðurlöndum, einkum Danmörku,  er nú mikið rætt um „eyðimerkurvæðingu“ staðbundinna fjölmiðla þar sem heilu landshlutarnir eru nú fjölmiðlalausir með öllu og þurfa að reiða sig alfarið á landsdekkandi miðla. Slíkt má ekki verða hlutskipti okkar!  Um leið og ég lýsi þeirri von  að Vikudagur standi sterkur um ókomin ár nærsamfélaginu til heilla  vil ég þakka miðlinum samfylgd í 20 ár og óska honum til hamingju á þessum tímamótum.

 -Höfundur  er dósent í fjölmiðlafræði við HA.

 


Nýjast