Erilsamt hjá lögreglu á Bíladögum

Aldrei hafa fleiri aðgöngumiðar selst á Bíladögum en í ár.
Aldrei hafa fleiri aðgöngumiðar selst á Bíladögum en í ár.

Helgin sem leið var erilsöm hjá lögreglunni á Akureyri en Bíldagar fóru þá fram. Engin stór eða alvarlega mál komu hins vegar upp og er lögreglan sæmilega sátt er fram kemur í færslu lögreglunnar á Facebook. Forsvarsmenn Bíladaga segja að aldrei hafi fleiri aðgöngumiðar verið seldir en nú.

Þegar rýnt er í dagbók lögreglunnar á Norðurlandi eystra og skoðað tímabilið frá hádegi á fimmtudaginn í síðustu viku og til hádegis á þriðjudaginn sl. sést að 305 verkefni eru skráð í umdæminu. Þar af eru kærur vegna hraðsaksturs 97 talsins. Fjórar líkamsárásir eru skráðar og sex eru kærðir vegna aksturs undir áhrifum áfengis. Einn er kærður fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og einn fyrir vörslur fíkniefna. Þá sinnti lögreglan nokkrum umferðaróhöppum en engin slys urðu á fólki. Ekkert kynferðisbrot hefur verið kært til lögreglu, segir  í færslunni.

Fimm tilkynningar vegna hávaða

„Því miður hefur það loðað við Bíladaga að þeim hefur fylgt ónæði fyrir bæjarbúa, vegna hávaða og mengunar sem verður þegar spólað er á götum bæjarins. Við viljum meina að þetta hafi þó lagast töluvert. Þó er alltaf einn og einn svartur sauður innan um sem getur ekki stillt sig um að haga sér eins og bjáni. Við gerum okkar besta til að stemma stigu við þessu, svo sem eins og að vera með ómerkta lögreglubíla í umferð og fylgjast sérstaklega með ákveðnum svæðum. Það verður þó aldrei þannig að við séum allsstaðar alltaf. Eftir helgina eru bókaðar fimm tilkynningar, þar sem bæjarbúar kvarta undan ónæði af þessu tagi,“ segir ennfremur í færslu lögreglunnar.


Nýjast