Erfiðlega gengur að manna stöður hjúkrunarfræðinga við SAk í sumar

Illa gengur að ráða hjúkrunarfræðinga á Sjúkrahúsið á Akureyri. Mynd/Auðunn Níelsson.
Illa gengur að ráða hjúkrunarfræðinga á Sjúkrahúsið á Akureyri. Mynd/Auðunn Níelsson.

Erfiðara gengur að manna stöður hjúkrunarfræðinga við Sjúkrahúsið á Akureyri en áður. Hildigunnur Svavarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar,-bráða,-og þróunarsviðs SAk, segir þetta eiga sérstaklega við um sumarafleysingar. Skortur sé á reyndari hjúkrunarfræðingum til að leysa af í sumar.

„Þetta er erfiðara en hefur verið undanfarin ár og er áhyggjuefni. En við erum að reyna okkar besta til að leysa málin og ég er sannfærð um að við gerum það,“ segir Hildigunnur. Til að bregðast við vandanum eru dæmi um að hjúkrunarfræðingar sem fyrir eru hafi bætt við sig starfshlutfalli í sumar, en einnig hafa hjúkrunarfræðinemar verið ráðnir til starfa, sem og utanaðkomandi hjúkrunarfræðingar. Þá hefur blaðið heimildir fyrir því að hjúkrunarfræðingar hafi verið beðnir um að fresta sumarfríinu að hluta til hafi þeir tök á.

Hildigunnur leggur áherslu á að þjónustan á SAk muni ekki skerðast í sumar vegna þessa. „Við teljum okkur vera eins vel búinn fyrir sumarið og hægt er miðað við þessar aðstæður. Þetta er vissulega höfuðverkur en okkur er að takast að ná utanum þetta og við munum áfram tryggja faglega þjónustu á sjúkrahúsinu.“

Ýmsar ástæður fyrir vandanum

Spurð um hvaða skýringar geti legið að baki þess að erfiðlega gangi að ráða hjúkrunarfræðinga en oft áður segir Hildigunnur þær vera margþættar.

„Í fyrsta lagi eru hjúkrunarfræðingar að leita í önnur störf og það skila sér ekki allir út í heilbrigðisþjónustuna. Þá eru einnig sífellt færri hjúkrunarfræðingar sem útskrifast úr Háskólanum á Akureyri að sækja um vinnu hjá okkur því minnsti hluti nemanna er frá Akureyri og þeir leita á önnur mið. Svo eru það launin, en við höfum komið verr út en aðrar stofnanir varðandi kjör hjúkrunarfræðinga. Þetta eru allt þættir sem við þurfum að skoða vel,“ segir Hildigunnur.


Nýjast