Er Framsókn ógn strax í upphafi?

Veltum því aðeins fyrir okkur hvers vegna oddvitar tveggja stjórnmálaafla af þremur sem mynda meirihluta í Norðurþingi gera Framsóknarsóknarflokkinn að umtalsefni í síðasta tölublaði Skarps? Strax eftir kosningar! Og Framsóknarflokkurinn í minnihluta. Eins og til stóð fyrir kosningar. Greinar oddvitanna virðast öðru fremur snúast um að telja upp ástæður þess að Framsókn hafi aldrei átt að vera í meirihluta eftir kosningar?

Að túlka kosningar

Það er rétt að blaðamaður Skarps leitaði eftir viðbrögðum mínum um niðurstöður kosninganna. Það er staðreynd að Framsóknarflokkurinn bætti við sig manni frá síðustu kosningum og nokkrum atkvæðum. Oddviti Vinstri Grænna gerir hinsvegar um 0.43% fylgistap að sérstöku umtalsefni í grein sinni. Það er áhugavert! Á sama tíma er tap Vinstri Grænna í Norðurþingi um 43%, eitt það mesta á landsvísu. Hundrað sinnum meira en Framsóknarflokksins í prósentum. Hvaða skilaboð eru það? Slagorð Vinstri grænna hljómar enn; hverjum treystir þú? Það er rétt, ég hringdi ekki í oddvita Vinstri Grænna eftir kosningar né heldur að hann hafi splæst símtali á mig fyrren eftir að meirihlutasamstarf flokkanna var staðfest og opinbert. Var hann að bíða eftir símtali frá mér í stað þess að hringja sjálfur? Það mega Vinstri grænir þó eiga að þeir leiddu stjórnun samfélagsins síðastliðin fjögur ár. Pólitísk ábyrgð var á þeirra herðum. Sigurvegari kosninganna var Kristján Þór Magnússon.

Að vera ósammála er ekki vantraust

Báðir oddvitarnir kalla eftir trausti, heilindum og góðum samskiptum. Því miður einkenndi það stjórnunarstíl oddvita Vinstri Grænna að líta á gagnrýni sem vantraust. Hér er það opinberað að hann treystir ekki fulltrúum Framsóknarflokks! Fólki sem hann hefur aldrei eða í nokkra mánuði starfað með í sveitarstjórn. Hvar birtist þetta vantraust? Hvað veldur? Nei, það er vont að draga stjórnmálin niður á þetta plan. Það er jú hlutverk þeirra sem sitja í minnihluta að rýna til gagns og veita aðhald. Það er ekki yfirlýsing um vantraust. Við erum í stjórnmálum til að takast á um leiðir. Við erum ekki sammála. Þess vegna veljum við ólík lið til að vinna fyrir, styðja eða bjóða okkur fram fyrir.

Hver er tilgangurinn?

Vinnubrögð og starfshættir kjörinna fulltrúa framsóknar og frambjóðenda eru gerð að umtalsefni. Fólk hvatt til að snúa sér að okkur í Framsókn og krefja okkur svara. Endilega. Það er ánægjuefni enda einu stjórnmálasamtökin sem boða fólk með reglulegum hætti á fundi til að ræða um samfélagið okkar. Það mættu aðrir taka sér til fyrirmyndar en gera ekki. Annars þarf oddviti Vinstri Grænna ekkert að gera lítið úr mér og vísa í Jákvæðan aga. Jú, ég kenni hann og iðka í minni vinnu. Hættum svona háði með orðaskrúð og dylgjum! Eða eru þessar greinar oddvitanna til þess fallnar að stuðla að góðu samstarfi og skapa traust á milli fólks? Nei, hér hafa þeir opinberað að meirihluti án Framsóknarflokks var markmið þeirra fyrir kosningar. Og það tókst.

Að þola gagnrýni?

Menn geta ekki í senn hvatt til gagnrýni og kveiknað sér yfir henni þegar hún birtist! Umfram allt. Þeir sem stjórna sveitarfélagi verða að þola gagnrýni! Að öðrum kosti ættu menn að snúa sér að einhverju öðru. Gagnrýni er ekki vantraust. Gagnrýni er heilbrigður þáttur í stjórnmálum. Við verðum að geta tekist á um það sem við teljum samfélaginu okkar fyrir bestu. Við erum fólk sem höfum ólíkar skoðanir og jafnvel lífssýn. Ég, eins og vonandi allir stjórnmálamenn, fer eftir eigin sannfæringu og legg mig allan fram. Vonandi munum við öll leggja okkur fram samfélaginu til heilla og vonandi gengur okkur sem allra best.

Hjálmar Bogi Hafliðason

Oddviti Framsóknar & félagshyggju


Nýjast