Er barnið þitt að sofa nóg?

Rannveig Elíasdóttir
Rannveig Elíasdóttir

Það er líkamanum jafnmikilvægt að sofa og hvílast eins og að borða og drekka. Góður nætursvefn er undirstaða líkamlegrar og andlegrar heilsu. Ef svefninn okkar er ekki í lagi er einhvern veginn eins og allt sé ómögulegt, við þekkjum þetta sjálf og höfum flest reynslu af ónógum svefni. Það er eins með börnin okkar og okkur. Ef þau fá ekki nægan svefn eða ekki nægilega góðan svefn eru þau alveg ómöguleg.

Hvernig er þá hægt að ætlast til þess að þau taki eftir í skólanum, fari á tómstundaæfingar og sinni heimanámi? Eða stökkvi upp á morgnanna eldhress til að fara í skóla þegar þau eru vakin? Slakur svefn getur verið orsakaþáttur ýmissa annarra vandamála, eins og kvíða, þunglyndis, pirrings, einbeitingaskorts einnig veikir það ónæmiskerfið sem gerir okkur þá útsettari fyrir umgangspestum.

En hvað er það sem er helst að trufla nætursvefn barnanna okkar? Fyrir það fyrsta, a.m.k. fyrir þau yngri verðum við að setja þeim mörk og beina þeim í rúmið á skikkanlegum tíma. Það er hjálplegt að hafa reglu á svefninum, fara alltaf að sofa á svipuðum tíma, hafa sömu rútínu fyrir svefninn. Börn finna það ekki hjá sér sjálf, þau þurfa leiðbeiningar. Best er að fá þau í lið með sér þannig að þau trúi því sjálf að það er þeim fyrir bestu að fara fyrr að sofa á kvöldin. Þau þurfa að finna að það sé einhver ávinningur fyrir þau sjálf. Það á jafnt við um ung börn og unglinga. Ef við förum í baráttu við þau, skilar það sjaldnast ávinningi.

Helstu óvinir svefnsins hjá nútíma börnum eru skjáir og orkudrykkir. Það getur þó orðið æ flóknara með hækkandi aldri og sjálfstæði barnanna. Gott er að spyrja sig: ,,hvað er barnið mitt að gera áður en það fer að sofa“? Er skjánotkun að trufla? Liggur unglingurinn í orkudrykkjum um daginn? Boð og bönn eru ekki endilega málið heldur þarf að ræða við börnin og útskýra afhverju ekki hitt og ekki þetta. Árangur heilsueflingar er bestur þegar við náum samstarfi með börnunum!

 

-Rannveig Elíasdóttir, hjúkrunarfræðingur í heilsuvernd grunnskólabarna 

 


Nýjast