Endurbætur í húsnæðismálum Öldrunarheimila Akureyrar

Dvalarheimilið Hlíð.
Dvalarheimilið Hlíð.

Árið 2012 var stórt skref tekið í að bæta aðbúnað íbúa hjá Öldrunarheimilum Akureyrar (ÖA) þegar Lögmannshlíð, nýtt hjúkrunarheimili við Vestursíðu var tekið í notkun. Þangað fluttust 45 íbúar sem höfðu búið í afar óhentugu húsnæði í Kjarnalundi og Bakkahlíð. Húsnæðið  þótti  ekki boðleg lengur og hentaði illa fyrir þá starfsemi sem dvalar- og hjúkrunarheimilum er ætlað í nútímasamfélagi.

Hið nýja hjúkrunarheimili í Lögmannshlíð var hannað frá grunni út frá þekktum áherslum um sjálfstætt líf og á grunni Eden hugmyndafræðinar sem unnið er eftir á ÖA . Í Lögmannshlíð er íbúum boðið upp á góðar aðstæður sem eru með því besta sem völ er á, á nútíma hjúkrunarheimili, bæði innanlands og þó víðar væri leitað. Einkaherbergi íbúa eru rúmgóð og á öllum herbergjunum er snyrting með sturtu (alls um 36 fermetrar).

Við hönnun og byggingu hússins var faglegt og metnaðarfullt samstarf með starfsfólki ÖA og hönnuðum, sem stýrt var af Fasteignum Akureyrar/nú Umhverfis- og mannvirkjasviði. Á vegum Akureyrarbæjar hafa frá árinu 2000 verið veitt árleg verðlaun fyrir byggingarlist. Á síðasta ári var ákveðið að skoða byggingar sem reistar voru með tilliti til þeirrar starfsemi sem fram fer í húsnæðinu og hlaut Fanney Hauksdóttir arkitekt verðlaunin, fyrir hönnun Lögmannshlíðar en í niðurstöðu nefndarinnar segir:

„Heimili og umgjörð þess er eitt af lykilatriðum vellíðunar hvers og eins og skiptir fagurfræðileg mótun þar máli. Útfærsla Lögmannshlíðar og innra skipulag styður einstaklega vel við sett markmið um eiginleika hjúkrunarheimilisins. Í hverju húsi er sérstakur heimilisbragur sem stuðlar að samskiptum og gagnkvæmum stuðningi. Sameiginleg rými eru vel mótuð og mynda fallega umgjörð um daglegt líf íbúanna“.

Að flytjast á hjúkrunarheimili er hverjum einstaklingi stór ákvörðun og á samkvæmt lögum um málefni aldraðra, að vera síðasta þjónustuúrræðið í lengra ferli. Það þýðir að yfirleitt er flutningurinn ekki endilega val hjá íbúunum enda byggist ákvörðunin á þörf en ekki á eigin vali. Sumir finna fyrir létti og eru ánægðir með að komast inn í öryggið en öðrum finnst erfitt að sætta sig við þennan flutning. Flestir aðlagast þó fljótt en partur af því er að þeir geti gert herbergið að sínu t.d. með því að flytja með sér uppáhalds húsgögn, málverk, ljósmyndir og jafnvel gæludýr.

Íbúar Öldrunarheimila Akureyrar eru 183 og er húsnæði þeirra afar misjafnt hvað varðar einkarými. Það er vel búið að þeim sem eru í Lögmannshlíð en í elstu hlutum húsnæðisins í Hlíð búa 54 íbúar og sum herbergin aðeins 9 fermetrar. Þar er því þröngt að búa og líka erfitt að athafna sig ef viðkomandi íbúi þarf að nota  hjálpartæki sem og fyrir starfsfólk að komast að við umönnun. Þar sem minnstu herbergin eru deila tveir íbúar snyrtingu eða jafnvel tíu íbúar með þrjár snyrtingar. Það er því víða aðkallandi þörf til að breyta og bæta aðstæður íbúanna þar sem núverandi húsnæði er úrelt og fullnægir ekki þeim kröfum sem gerðar eru til hjúkrunarheimila í dag.

Það er von okkar sem þetta rita, að Akureyrarkaupstaður haldi áfram með uppbyggingu og endurbætur á húsnæði hjúkrunar- og dvalarheimilisins í Hlíð, með sama metnaði og einkenndi velheppnaða uppbyggingu Lögmannshlíðar.

-Höfundar eru forstöðumaður í Lögmannshlíð og hjúkrunarforstjóri Öldrunarheimila Akureyrar


Nýjast