Endurbætur að hefjast á Akureyrarkirkju

Búið er að reisa vinnupalla við suðurvegg kirkjunnar og viðgerð hefst á næstu dögum. Mynd/Þröstur Er…
Búið er að reisa vinnupalla við suðurvegg kirkjunnar og viðgerð hefst á næstu dögum. Mynd/Þröstur Ernir.

Viðgerðir eru að hefjast á Akureyrarkirkju vegna skemmda sem unnar voru á kirkjunni veturinn 2017. Sóknarnefnd Akureyrarkirkju sótti um fjárstyrk til Jöfnunarsjóðs kirkjunnar og húsfriðunarsjóðs Minjastofnunar Íslands vegna skemmdanna en tekið hefur talsverðan tíma að fá fjármagn í verkið og finna rétta efnið. Tjónið er í heild sinni metið á um 18 milljónir króna en styrkir frá Jöfnunarsjóði kirkna og Húsafriðunarsjóði eru 9,5 milljónir króna.

Það var í byrjun janúar 2017 sem spreyjað var á kirkjuna allskyns ófögrum orðum sem sneru flest að andúð á trúarbrögðum og heimspeki. Mest var spreyjað á framhlið og suðurhlið kirkjunnar. Einnig var spreyjað á Kaþólskukirkjuna, Glerárkirkju og Hvítasunnukirkjuna og tókst að fjarlægja ummerkin á þeim kirkjum.

Ólafur Rúnar Ólafsson, formaður sóknarnefndar Akureyrarkirkju, segir að búið sé að kaupa efni til viðgerða á allri kirkjunni. Framkvæmdin verði hins vegar tekin í áföngum og byrjað á suðurvegg kirkjunnar sem varð verst úti af skemmdarvargnum. Mun sú framkvæmd taka nokkrar vikur.

„Við förum eins langt í þessum áfanga og fjármunir duga til. Mögulega getum við einnig tekið framhliðina á kirkjunni í þessari lotu,“ segir Ólafur Rúnar.   

 

 


Nýjast