Ekki létt að kveðja gamla flokkinn sem hefur verið mér kær

„Óneitanlega breytast mínir hagir töluvert,
„Óneitanlega breytast mínir hagir töluvert," segir Anna Kolbrún Árnadóttir nýkjörinn þingmaður fyrir Miðflokkinn í Norðurlandskjördæmi eystra.

 „Óneitanlega breytast mínir hagir töluvert. Ég vonaði auðvitað innilega að flokkurinn næði góðum árangri í kjördæminu, en einhvern vegin setti ég sjálfa mig aldrei inni í þá jöfnu og átti því bara alls ekki von á þessum umskiptum,“ segir Anna Kolbrún Árnadóttir nýkjörinn þingmaður fyrir Miðflokkinn í Norðurlandskjördæmi eystra. Hún kveðst í sínum villtustu draumum fyrir kosningar hafa gælt við að Miðflokkurinn fengi 19% fylgi í kjördæminu en fáum sagt frá. Flokkurinn fékk 18,59% atkvæða. Anna Kolbrún skipaði annað sæti listans og er nú orðin einn af þingmönnum kjördæmisins.

Ræturnar liggja í Framsóknarflokknum þar sem hún hefur í áratugi gengt trúnaðarstörfum og verið virk í grasrótinni. Kaflaskil urðu nú á haustdögum þegar Anna Kolbrún sagði skilið við sinn gamla flokk og gekk til liðs við hinn nýstofnaða stjórnmálaflokk, Miðflokkinn.

Áhrifaöfl ekki á þeim buxum að finna sáttaflöt

Alkunna er að væringar hafa hin liðnu misseri verið innan Framsóknarflokksins, þar sem menn hafa skipt sér upp í fylkingar, önnur studdi fyrrverandi formann, hin vildi hann á brott. Sjálf kveðst Anna Kolbrún hafa talið að vilji væri til að læga öldur nú í haust, finna sameiginlega leið og efna til flokksþings í upphafi nýs árs þar farið yrði yfir málin og kosið um formann. „Ég satt best að segja hélt að við værum á þeirri leið, en það sem meðal annars gerði útslagið að svona fór, var að Þórunn Egilsdóttir bauð sig fram í fyrsta sæti á lista Framsóknarflokksins, augljóslega til höfuðs Sigmundi Davíð. Það er vissulega hennar réttur að gera það, en útspilið var greinilega þess eðlis að áhrifaöfl innan Framsóknar voru ekki á þeim buxunum að finna sáttaflöt,“ segir hún. „Það var ekki létt að kveðja minn gamla flokk sem hefur verið mér kær í áratugi, en ég stend með þessari ákvörðun, mér og fleirum var einfaldlega nóg boðið.“

Anna Kolbrún var í opnuviðtali Vikudags í liðinni viku og má nálgast það í heild sinni í prentútgáfunni.

 


Nýjast