Eining-Iðja fagnaði útgáfu bókar um sögu félagsins

Eining-Iðja færði fjórum félagasamtökum /stofnunum á félagssvæði sínu veglega peningagjöf í tilefni …
Eining-Iðja færði fjórum félagasamtökum /stofnunum á félagssvæði sínu veglega peningagjöf í tilefni af útkomu bókarinnar. Frá vinstri er Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, Elín Björg Ragnarsdóttir, formaður Aflsins, samtaka gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, Þórunn Anna Elíasdóttir, gjaldkeri Aflsins, Hlíf Guðmundsdóttir, formaður Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis, Friðrik Einarsson, formaður stjórnar Grófarinnar, geðverndarmiðstöðvar, Ingvar Þóroddsson, forstöðulæknir Kristnesspítala og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Mynd: Daníel Starrason.

Stéttarfélagið Eining-Iðja hélt útgáfuhátíð í Menningarhúsinu Hofi sl. helgi í tilefni af útkomu bókarinnar „Til starfs og stórra sigra – Saga Einingar-Iðju 1906-2004“. Þessi dagur var valinn því þann 10. febrúar, fyrir 55 árum, sameinuðust Verkakvennafélagið Eining og Verkamannafélag Akureyrarkaupstaðar. Sérstakur gestur hátíðarinnar var forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sem flutti erindi og tók við fyrsta eintaki bókarinnar.

Í tilefni af útgáfu bókarinnar ákvað stjórn Einingar-Iðju að veita fjórum samtökum og stofnunum styrk frá félaginu. „Það er smá þakklætisvottur og viðurkenning fyrir þeirra mikla og góða starf. Þau hafa hvert á sinn hátt hjálpað mjög mörgum af þeim félagsmönnum okkar sem hafa átt í erfiðleikum.Það er ógerlegt að telja upp allt sem þessir aðilar hafa gert, en við vitum öll hversu miklu þau hafa áorkað með starfi sínu,“ sagði Björn Snæbjörnsson formaður Einingar-Iðju í ávarpi. Félögin eru Krabbameinsfélag Akureyrar, Endurhæfingardeildinni á Kristnesi, Aflið og Grófin. Fengu þau hvert um sig styrki upp á eina miljón króna. Jafnframt var öllum bókasöfnum á starfssvæði félagsins gefin bókin að gjöf.

Bókin að öllu leyti unnin í heimabyggð

Á aðalfundi Einingar-Iðju þann 16. apríl 2013 var samþykkt tillaga stjórnarinnar um að láta rita sögu félagsins og fyrirrennara þess. „Þetta mikla rit „Til starfs og stórra sigra“ hefur því verið í rúm fjögur ár í smíðum. Í framhaldinu var samið við Jón Hjaltason sagnfræðing um ritun bókarinnar og hún er að öllu leyti unnin norðan heiða  - skrifuð, brotin um og prentuð á Norðurlandi. Ég vil nota tækifærið og þakka Jóni Hjaltasyni ánægjulegt og gott samstarf síðastliðin 4 ár.

Ég vil líka þakka ritnefndinni sem hélt utan um einstaka verkþætti allan ritunartímann með miklum sóma, þeim Braga V. Bergmann, Sigrúnu Lárusdóttur og Þorsteini E. Arnórssyni,“ sagði Björn og þakkaði líka þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu til myndir í bókina, en margar þeirra eru einstæðar og hafa ekki birst áður opinberlega. Einnig þakkaði hann Guðjóni Heimi Sigurðssyni vandað umbrot og myndvinnslu og starfsfólki Ásprents fyrir afbragðs prentun og bókband.

Margt sem kemur á óvart

Björn sagði að við lestur þessarar bókar komi margt á óvart, og þó að hún spanni „einungis“ hundrað ár í sögu verkafólks við Eyjafjörð er með ólíkindum hversu mikið hefur breyst á þeim tíma. „Ég lít með aðdáun og þakklæti til genginna kynslóða og skil í raun ekki hvaðan þeim kom kraftur og þrautseigja til að takast á við þær afleitu aðstæður sem þeim voru búnar,“ sagði Björn.

„Í stuttu máli má segja að nær öll starfskjör- og réttindi, sem við teljum svo sjálfsögð í dag, hafi ekki þekkst þá. Í bókinni er lýst hvernig smám saman þokaðist í rétta átt. Þar gerði stofnun og starf fyrstu verkalýðsfélaganna gæfumuninn og segja má að þau hafi markað þáttaskil í baráttu verkafólks. Smám saman fann fólk hve máttur fjöldans var mikill – að með órofa samstöðu var hægt að vinna stóra sigra. Þótt margt hafi áunnist í baráttu verkafólks fyrir bættum kjörum er ennþá margt óunnið. Jafna þarf lífskjörin í landinu og minnka mun hæstu og lægstu launa. Við megum því alls ekki sofna á verðinum og höldum baráttunni ótrauð áfram,“ sagði Björn m.a. í ávarpi sínu á útgáfuhátíðinni.

 


Nýjast