Ein með öllu að hefjast á Akureyri

Mynd af vefsíðu Akureyrarbæjar/ Frá sparitónleikum á Leikhúsflötinni fyrir ári.
Mynd af vefsíðu Akureyrarbæjar/ Frá sparitónleikum á Leikhúsflötinni fyrir ári.

Fjölskylduhátíðin Ein með öllu sem og Íslensku sumarleikarnir verða venju á Akureyri um verslunarmannahelgina. Dagskrá verður alla dagana hér og hvar um bæinn, á miðbæjarsvæðinu, Glerártorgi, Lystigarðinum og Leikhúsflötinni svo eitthvað sér nefnt.

Sérstök krakkadagskrá verður í miðbænum á laugardag, hátíðartónleikar með ýmsum flytjendum á Ráðhústorgi á föstudags- og laugardagskvöld, markaðsstemning á Ráðhústorgi allan sunnudaginn, Kirkjutröppuhlaupið verður á sínum stað á morgun föstudag og Mömmur og muffins bjóða í veislu í Lystigarðinum um miðjan daga á laugardag. Óskalagatónleikar verða í Akureyrarkirkju svo sem venja er, vatnsrennibraut verður sett upp í Gilinu fyrir þá sem leggja í svoleiðis.

Sparitónleikar á Leikhúsflöt

Sparitónleikar verða á Leikhúsflötinni á sunnudagskvöld þar sem fram koma Jónas Sig, Friðrik Dór, Herra Hnetusmjör, KA-AKÁ, Stefán Elí, Flammeus, Anton Líni, Gréta Salóme og fleiri. Tónleikunum lýkur með glæsilegri flugeldasýningu um miðnætti.

Vegna hátíðahaldanna verður röskun á umferð um miðbæjarsvæðið um helgina og gripið til tímabundinna lokana. Upplýsingar um það má finna inn á heimasíðu hátíðarinnar einmedollu.is og þar er líka birt ítarleg dagskrá fyrir alla hátíðardagana.

 


Nýjast