Ég óska ykkur öllum heilbrigði og ánægju

Lóa Maja Stefánsdóttir.
Lóa Maja Stefánsdóttir.

Deild hjúkrunarfræðinga við Eyjafjörð var stofnuð í byrjun árs 2018. Er hún deild innan Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Vikudagur hefur birt greinar eftir hjúkrunarfræðinga sem starfa í Eyjafirði. Tilgangurinn er að kynna hin fjölbreyttu og áhugaverðu störf hjúkrunarfræðinga á svæðinu, en þau snerta alla landsmenn á öllum aldri. Að þessu sinni mun Lóa Maja Stefánsdóttir kynna starf sitt. 

Ég heiti Lóa Maja Stefánsdóttir og ég er hjúkrunarfræðingur. Þetta er setning sem ég segi oft, í raun í hvert sinn sem ég kynni mig fyrir nýjum skjólstæðingi. Ég sleppi samt oftast föðurnafninu enda kemur faðir minn starfi mínu lítið við. Þessa setningu segi ég með stolti enda hafði ég mikið fyrir því að verða hjúkrunarfræðingur. Frá því ég var lítil dreymdi mig um að verða hjúkrunarfræðingur og var alltaf í hlutverki þess sem lagaði og huggaði þegar við vinkonurnar vorum í mömmó. Ég er líka alveg óskaplega forvitin og hef ánægju af því að vera í miklum samkiptum við fólk og því á starf hjúkrunarfræðingsins mjög vel við mig.

Ég útskrifaðist frá Háskólanum á Akureyri sem hjúkrunarfræðingur með BS gráðu árið 2015, þá 41 árs gömul. Bekkjasystkini mín eru flest töluvert yngri en ég, en nokkur þó eldri og finnst mér það eðalblanda. Við vegum nefninlega hvert annað upp, einn er góður í þessu en annar í hinu. Frábærir hjúkrunarfræðingar allir sem einn, árgangurinn minn. Og í raun flestir þeir hjúkrunarfræðingar sem ég hef starfað með. Ég starfa í augnablikinu á gjörgæsludeild SAk, hef unnið þar frá 2012. Fyrst vann ég sem sjúkraliði og síðan sem hjúkrunarfræðingur eftir útskrift.  Á gjörgæslunni kann ég mjög vel við mig. Oft er erfitt að útskýra í hverju starf mitt í rauninni felst, það er svo gríðarlega fjölbreytt. Ef ég hugsa í gegnum eina vakt, bara svona nokkuð rólega vakt og hvað það er sem ég geri þá má segja að ég byrja á því að kynna mér skjólstæðinga mína, fæ rapport um þá, les mér til um þá og reyni að meta hver staða þeirra sé.  Yfirfer lyf og vökva sem viðkomandi fær, tek til lyf og gef þau. Skoða niðurstöður rannsókna, yfirfer skjólstæðinginn með læknum þar sem við leggjum línur fyrir áframhaldandi meðferð og svo framvegis. Mikill hluti starfs míns fer fram í gegnum samkipti við skjólstæðinginn, fjölskyldu hans, sjúkraliða, hjúkrunarfræðinga, sjúkraþjálfara, lífeindafræðinga, röntgentækna, lækna ofl. Að einum einstaklingi koma fjölmargir aðilar og mitt starf er að halda utan um þetta allt saman með þarfir skjólstæðingsins í huga. Þetta virkar kannski einfalt á blaði en jeremías hvað hlutirnir geta fljótt breytst og heilsa fólks hrakað, eða batnað á mjög skömmum tíma. Engin vakt er eins og er það eitt af því sem gerir starf mitt svo spennandi og krefjandi.

Forvitni spilar stórt hlutverk í mínu starfi. Af hverju er viðkomandi veikur, hvað er hægt að gera fyrir hann, hvað get ég gert? Eru einhverjar nýjar rannsóknir komnar á sjónarsviðið? Eitthvað meira sem ég get lært. Sem hjúkrunarfræðingur er ég endalaust að læra eitthvað nýtt og spennandi, sjá eitthvað nýtt og takast á við ný verkefni. Í augnablikinu á til dæmis fjölskylduhjúkrun hug minn allan. Margir hugsa nú eflaust hvað er fjölskylduhjúkrun? Ja ef þið bara vissuð.  Nú, öll vitum við að í fæstum tilvikum er fólk alveg eitt, enginn er eyland eins og stóð einhversstaðar. Fjölskyldan eru þeir einstaklingar sem við sjálf skilgreinum sem okkar fjölskyldu og samsetning hennar  getur verið margvísleg trúið mér. Fjölskylduhjúkrun snýst um  að markvisst vinna með fjölskyldunni  að heilbrigði sjúklingsins ekki eingöngu með hann. Sammvinna er lykilatriði því við vitum að veikur einstaklingur hefur áhrif á marga í kringum sig  ekki síst þá sem standa honum nærri og þeir hafa áhrif á hann. Að teikna fjölskyldutré sjúklings með honum og hans nánustu sem síðan fylgir hans sjúkraskrá er stórt atriði og hjálpar mikið til við umönnun sjúklingsins. Það veitir heilbrigðisstarfsfólki dýpri skilning og sjúklingurinn fær heildrænni hjúkrun. . Ég er svo lánsöm að ég ásamt öðrum sé um fræðslu í fjölskylduhjúkrun  fyrir hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða á SAk. Einnig sé ég um framkvæmd og eftirfylgni fjölskylduhjúkrunar á minni deild á SAk og er það ótrúlega skemmtilegt. Ég hef mjög gaman að því að miðla og kenna og það er einmitt enn eitt sem felst í starfinu mínu, okkur ber skylda til að fræða og kenna hjúkrunarnemum sem koma til okkar og auðvitað gerir maður það með mikilli gleði.

Það eru margar áskoranir í mínu starfi og tek ég þeim fagnandi. Það er alltaf hollt að ögra sér. Til dæmis  tók ég þá ákvörðun að segja að minnsta kosti þrisvar sinnum oftar já en nei við því sem ég er beðin um að gera eða boðið að taka þátt í. Það hefur til dæmis haft það í för með sér að ég er að fara á nokkrar ráðstefnur á þessu ári til að fjalla  um fjölskylduhjúkrun. Eitthvað sem er gríðarlega langt út fyrir minn þægindaramma en ég veit að verður mjög gaman og fróðlegt. Eins hef ég kynnst ofsalega mörgu og fallegu fólki í starfi mínu. Mikið sem mannauður okkar er mikill hér á landi og magnað hvað allir, sama hversu veikburða eða hvaða verkefni þeir eru að kljást við, hafa mikið fram að leggja.

Eitt sem mig langar að nefna varðandi hjúkrunarfræðinga og störf þeirra. Við búum yfir gríðarlega mikilli og víðtækri þekkingu sem við fáum bæði í gegnum nám við HA og HÍ og við störf okkar. Þessi þekking og störf koma við alla í okkar samfélagi á einn eða annan hátt, frá vöggu til grafar. Ég leyfi mér að fullyrða að enginn hér á Íslandi hefur sloppið við það að eiga samskipti við eða fá þjónustu  hjúkrunarfræðings á einhverjum tímapunkti í sínu lífi. Mér hefur fundist mjög merkilegt að lesa greinarnar sem komið hafa hér í Vikudag sem og öðrum miðlum eftir hjúkrunarfræðinga þar sem þeir segja frá sér og störfum sínum. Það sem mér finnst svo stórkostlegt er að enginn okkar er að gera það sama og áherslur í störfum okkar eru eins misjafnar eins og þær eru margar, þó er alltaf sami rauði þráðurinn það er að segja hagur skjólstæðinga okkar. Ég hvet ykkur til að lesa þessar greinar, þetta er stórkostlegt fólk.

Eftir tuttugu ár sé ég mig starfandi sem hjúkrunarfræðingur. Það eru jú forréttindi að hlakka alltaf til að mæta í vinnuna og takast á við ný viðfangsefni og það mun ekki breytast. Ég vonast til að geta betur lifað af laununum mínum og þar með verið komin í minna starfshlutfall því á einhverjum tímapunkti býst ég við að fá að verða amma og því hlutverki ætla ég að sinna vel.

Ég óska ykkur öllum heilbrigði og ánægju.

 


Nýjast