Ég hef fundið sannleikann!

Ég var alinn upp í hálfgerðu Danahatri af mínu fólki og ekki bætti grunnskólakennsla í Laugarnesskólanum úr því. Fóstri minn kenndi Dönum um allt sem miður hafði farið hér á landi. Allt slæmt var af völdum Dana. Danir gerðu þetta og Danir gerðu hitt.

Einhverra hluta vegna smitaðist ég ekki af þessu bulli. Það var nefnilega þannig að þegar Gugga frænka kom frá Danmörku þá fékk ég alltaf stórt epli, þó að jólin væru ekki, og þarna hafði ég mín fyrstu raunverulegu kynni af Dönum. Það minnkaði ekkert álit mitt á Dönum þótt við töpuðum fyrir þeim í fótbolta 14-2.

Því eldri sem ég verð eykst álit mitt á Dönum. Engir aðrir en Danir hefðu skilað okkur handritunum, sjálfum bókmenntaarfi Norðurlanda. Þeim var það í sjálfsvald sett hvort þeir skiluðu þeim, en slík er vinsemd þeirra í okkar garð að þeir færðu okkur handritin á eigin skipum á sínum tíma.

Og eitt er víst, að ég hefði aldrei staðið með þeim sem höfðu forgöngu við skilnað okkar við þá. Það hefir margsannað sig að við erum ekki hæfir til að stjórna eigin landi, þar sem við höfum ekki stjórnhæfa menn. Á sínum tíma ógnaði Danakonungi svo spillingin í ættarveldinu á Íslandi að hann sendi sendinefnd til landsins til að kanna hvað væri að ske á Íslandi, misskipting var orðin það mikil í landinu að Dönum ógnaði og ættarveldið og kirkjan voru að sölsa allt undir sig. Allar jarðir sem voru einhvers virði, voru komnar undir ættarveldi og kirkju.

Hvar erum við svo stödd í dag, hverjir eiga landið og miðin? Nokkrar ættir halda áfram að sölsa undir sig auðlindirnar og þjóðkirkjan dansar með í þögninni og hverju hneyklismálinu á fætur öðru. Að lokum þessi tilvitnum í Paradísarheimt HKL:

„Að vakna við að maður hefur miss allt og veit að maður á ekki lengur neitt, er það þá að vera manneskja?“

Örn Byström, Einarsstöðum.


Nýjast