Dökklæddur maður reyndi að nálgast börn við Giljaskóla

Foreldrar nemenda í Giljaskóla á Akureyri fengu tölvupóst frá stjórnendum skólans í gærmorgun þar sem greint var frá því að nokkrar ábendingar höfðu borist um að dökkklæddur maður hafi komið á skólalóðina og verið að benda stúlkum að koma til sín, jafnvel elt þær, svo þær urðu mjög hræddar.

Lýsing á manninum var að hann hefði verið klæddur í dökk föt, úlpu með loðkraga og með svarta húfu.

Í tölvupóstinu segir að eftir hádegi hafi síðan borist ábending frá tveimur stúlkum sem voru á ferð ofan við Vestursíðu. Þar var maður að miðjum aldri með sítt skegg á gráum litlu bíl sem stoppaði og vildi tala við þær en þær hlupu í burtu. Það atvik var tilkynnt til lögreglu.

„Hvetjið börnin ykkar til að gæta sín vel, forðast jafnvel að vera ein á ferð þegar dimmt er, og endilega að koma til okkar nákvæmum upplýsingum ef þau verða t.d. vör við að einhver ókunnugur reyni að nálgast börn í hverfinu,“ segir í töluvpóstinum.

Varðstjóri hjá lögreglunni á Akureyri sagði í samtali við Vikudag í morgun að tilkynningar frá bæði foreldrum í hverfinu og stjórnendum Giljaskóla höfðu borist í gær. Lögreglan hefur engan grunaðan um verknaðinn en fylgist grannt með málinu.

„Við tökum öllum svona tilkynningum alvarlega,“ sagði varðstjóri hjá lögreglunni.


Nýjast