Danska leiðin sem batt grunnskólakennara líður undir lok

Helga Dögg.
Helga Dögg.

Þegar skólabjallan hringir næsta skólaár verður meiri sveigjanleiki hjá grunnskólakennurum í Danaveldi en undanfarin ár. Kjarasamningur grunnskólakennara hér á landi losnar 1. nóvember og mér heyrist hugur í kennurum að ná sveigjanleikanum inn í starfið að nýju. Annað tveggja, í miðlægum samningi eða samningi við hvert sveitarfélag. Stjórnendur skóla ættu að hafa alla möguleika til að semja við sína kennara um sveigjanleg starfslok hvers skóladags. Hann er skiptstjórinn á skútunni og hefur ánægju starfsmanna í hendi sér þegar kemur að þessum þætti starfsins.

Frá því að grunnskólalögin í Danmörku tóku gildi hafa fleiri sveitarfélög komið á móts við kennara með auknum sveigjanleiki. Félag grunnskólakennara upplýsir, að 68 sveitarfélög hafi lokið samningum eða komið sér saman um sameiginlegan skilning á vinnutíma kennara á skólaárinu.

Sveitarfélagið Morsø hefur nýlega gert samkomulagi við sína kennara. Að sumarfríi loknu geta kennarar sjálfir ákveðið hvar og hvenær þeir undirbúa kennslu.

Það er nákvæmega þess konar samingur sem vekur gleði á kennarastofunum segir formaður deildar kennara á Mors, Philip Lehn Brandt, og bætir við að sem betur komast þau undan gapastokknum, við losnum við þvingandi vinnutímareglur sem troðið var yfir hausinn á okkur og nú eru við á byrjunarreit. Ég er mjög ánægður með það segir Philip.

Formaður fræðsluráðs í Morsø er líka ánægð með samkomulagið. Vibeke Skou Hansen segir þau hafa í sameiningu komist að hvað þarf til að auka gæði skóla og við áttum okkur á hvað fagmennsku kennara og stjórnenda þýðir.

Philip Lehn Brandt telur mikilvægt, traustsins vegna, að kennarar þurfi ekki að óska eftir leyfi velji þeir að fara heim eftir kennslu, í gönguferð eða undirbúa kennslu að kvöldi. Fagfólk á ekki endalaust að þurfa biðja um leyfi til að gera hitt og þetta segir hann.

Þegar skólamál eru annars vegar og aðrir en kennarar ákveða hvað skólum og innviðum þeirra sé fyrir bestu er voðinn vís. Ég man ekki betur en að mér ásamt öðrum kennurum hafi verið hótað að samþykktum við ekki síðasta kjarasamingi myndi ,,danska leiðin” verða tekin upp og þá værum við lent í drullupytti. Og við hefðum ekkert um það að segja. Danska leiðin hefur nú runnið sitt skeið. Danskir kennarar hafa endurheimt sveigjanleika í sínu starfi. Grunnskólakennarar hér á landi sitja uppi með bindingu á vinnutíma og sitt sýnist hverjum um það. Kjarasamingurinn er laus eftir um hálft ár og margir kennarar vilja endurheimta sveigjanleika í starfi, rétt eins og frændur vorir Danir.

-Helga Dögg Sverrisdóttir, grunnskólakennari.

(Greinin er að mestu byggð á þessum skrifum: http://www.dr.dk/nyheder/regionale/midtvest/flere-laerere-faar-fleksible-arbejdstider-det-er-vigtigt-tilliden)


Nýjast