Völsungur í 90 ár

Mynd úr safni
Mynd úr safni

Þann 12. Apríl nk. Eru 90 ár liðin frá því að 23 drengir á Húsavík, flestir á fermingaraldri tóku sig til og stofnuðu íþróttafélagið Völsung.

Það er heilmikið sem stendur til á afmælisárinu og dagskráin í raun löngu hafin. Fyrr í þessum mánuði stóð blakdeild Völsungs fyrir fjölmennu nýársmóti í íþróttahöllinni í tilefni afmælisins. Um 50 lið tóku þátt í mótinu og spilaðir voru 98 leikir. Af sama tilefni voru heiðurshjónin Védís Bjarnadóttir og Vilhjálmur Pálsson heiðruð fyrir framlag þeirra til blakíþróttarinnar á Húsavík.

Þannig mun hver deild innan Völsungs eiga sinn þemamánuð á árinu. Handknattleiksdeildin er með viðburð í mars en aðalstjórn Völsungs á febrúarmánuð og mun standa fyrir fyrirlestrarröð. Það er Tjörnesingurinn Heiðar Hrafn Halldórsson sem ríður á vaðið með fyrirlesturinn:  „Úr sófanum í maraþon: Leiðarvísir fyrir byrjendur í langhlaupum með sannsögulegu ívafi.“ Í fyrirlestrinum fer Heiðar Hrafn  yfir allt það helsta sem hafa ber í huga þegar byrjað er í sportinu. Segist hann ætla að  hafa sína eigin hlaupasögu til hliðsjónar. Fyrirlesturinn fer fram á Græna torginu í Íþróttahöllinni fimmtudaginn 9. febrúar nk. klukkan 20.

Sögusýning og afmælisrit

Á sjálfan afmælisdaginn, 12. apríl verður opnuð stórsýning í Safnahúsinum um sögu Völsungs undir yfirskriftinni: Völsungur og samfélagið. Listrænn stjórnandi sýningarinnar er Röðull Reyr Kárason. Hann vildi koma því á framfæri að fólk gæti haft samband við sig ef það lumaði á ljósmyndum, gömlum búningum eða öðrum munum sem tengjast sögu félagsins og er tilbúið til að lána gripina á sýninguna.

Sama dag kemur út 90 ára afmælisrit Völsungs, veglegt 56 síðna blað fullt af myndum, viðtölum og frásögnum af atburðum úr sögu félagsins. Í blaðinu  verður einnig lögð sérstök áhersla á mikilvægi Völsungs fyrir samfélagið á Húsavík.

Völsungur mun á næstu dögum og vikum leita til fyrirtækja og annarra velunnara félagsins til að styrkja útgáfuna og sem þakklætisvott verða nöfn þeirra birt í blaðinu.

Hægt er að hafa samband við Röðul á netfanginu rodull@gmail.com

Fyrir þá sem vilja styrkja útgáfu afmælisritsins er bent á Guðmund Friðbjarnarson, framkvæmdatjóra volsungur@volsungur.is

 

 


Nýjast