„Sumir voru reiðir og aðrir sárir“

Myndin er tekin þegar Þór/KA tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn árið 2012, Mynd: Sævar Geir.
Myndin er tekin þegar Þór/KA tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn árið 2012, Mynd: Sævar Geir.

KA sendi frá sér tilkynningu í vikunni sem óhætt er að segja að hafi valdið talsverðum titringi. Í tilkynningunni kom fram að KA hyggist ekki endurnýja samninga við Þór um sameiginlega meistaraflokka kvenna í handknattleik og knattspyrnu sem hafa verið í gildi frá árinu 2001.

„Fyrst og fremst er þessi afstaða tekin vegna þess að í mörg ár hefur verið mikil pressa innan KA að setja á laggirnar meistara- og 2. flokkslið kvenna. Það hefur orðið sprenging í iðkendafjölda hjá stelpum í fótboltanum um land allt og sem betur fer líka hjá KA. Það hefur orðið þónokkuð brottfall af stelpum eftir 3. flokk og margir hafa komið og rætt þetta mál við okkur, þetta er búið að vera mikið í kollinum á fólki. Það er fyrst og fremst ástæðan,“ segir Eiríkur Jóhannson, formaður knattspyrnudeildar KA í samtali við Vikudag.

Árni Óðinsson, formaður Þórs segir að fréttirnar af ákvörðun stjórnar KA hafi komið eins og sjokk fyrir fólkið sem sat á aðalstjórnarfundi Þórs þegar þær bárust. „Fólk horfði bara hvert á annað. Það var ekki andrúmsloft á fundinum til að ræða þetta af einhverri skynsemi. Sumir voru reiðir og aðrir sárir, fólk var bara ekki í ham til að ræða þetta til skynsamlegrar niðurstöðu. Þannig að við ákváðum að gefa þessu tíma“.

Ítarlega er fjallað um málið í prentútgáfu Vikudags sem kemur út í dag en þar er m.a rætt við Árna Óðins­son, formann Þórs og Eirík Jóhannson, formann knattspyrnudeildar KA.


Nýjast